Brotin eiga að hafa verið framin á sjötíu ára tímabili og verið þögguð niður af kaþólsku kirkjunni í ríkinu að því er fram kemur í skýrslu rannsóknarnefndarinnar. Skýrslan byggir á tugum viðtala við fórnarlömb og um hálfa milljón skjala úr fórum kirkjunnar.
„Við teljum að raunverulegur fjöldi barna, upplýsingar hverra hafa horfið eða sem voru of hrædd til að stíga fram, sé nokkur þúsund,“ segir í skýrslunni sem er um 1.400 síður að lengd.
Sú umfangsmesta frá Boston-skýrslunni
Rannsóknin var framkvæmd að beiðni ríkissaksóknaraembættisins í Pennsylvaníu. Þetta er ein umfangsmesta rannsóknin á kynferðisbrotum þjóna kaþólsku kirkjunnar í Bandaríkjunum frá því að upp komst um brot presta í Boston í Massachusetts fyrir um tuttugu árum.
Ekki er ljóst hvað mörg brot í Pennsylvaníu komi til með að leiða til málaferla. Vegna þöggunnar kirkjunnar er ljóst að mörg brotin séu fyrnd. Í skýrslunni er þó tiltekið að tveir prestar hafi brotið gegn börnum síðasta áratuginn.
Vörðu kirkjuna
Leiðtogar kaþólsku kirkjunnar eiga að hafa skipulega þaggað niður brotin og varið þjóna kirkjunnar og kirkjuna sjálfa gegn öllum þeim ásökunum sem á þau voru borin.
Bandarískir fjölmiðlar greina einnig frá því að fjölmargir grunaðra hafi reynt að koma í veg fyrir birtingu skýrslunnar. Saksóknarar, fjölmiðlar og fórnarlömb hafi þrýst á að skýrslan verði gerð opinber, en æðsti dómstóll ríkisins úrskurðaði í síðasta mánuði að svo skyldi vera. Nokkur þeirra nafna sem fram koma í skýrslunni hafa þó verið afmáð.