Atli færði sig tímabundið yfir í Borgarleikhúsið til þess meðal annars að taka þátt í uppsetningu Medeu sem frumsýna átti um síðustu jól. Var honum sagt upp vegna ásakana í tengslum við #metoo byltinguna en sjálfur segist hann aldrei hafa fengið skýr svör hvers eðlis ásakanirnar hefðu verið. Ásakanirnar hefðu verið nafnlausar.
Frumsýningu á Medeu, jólasýningu Borgarleikhússins, var frestað vegna uppsagnar Atla Rafns. Þá átti Atli Rafn sömuleiðis að fara með hlutverk Riff-Raff í Rocky Horror en af því varð ekki.

„Eins og eðlilegt er þegar maður fær leyfi þá snýr hann til baka að því loknu, nema einhverjar málefnalegar ástæður séu fyrir öðru. Þær eru ekki í málinu,“ sagði Ari Matthíasson þjóðleikhússtjóri við Morgunblaðið á dögunum. Hann ítrekaði að Atli Rafn hefði ekki brotið af sér í starfi hjá leikhúsinu og engar kvartanir borist vegna starfa hans.
Atli Rafn hefur verið einn farsælasti leikari þjóðarinnar undanfarin árin. Hann útskrifaðist frá LHÍ árið 1997 og hefur leikið í fjölda sjónvarpsþátta og kvikmynda til viðbótar við fjalir leikhúsanna.