Innlent

Nefnd leitar sátta við sakborninga og aðstandendur í Guðmundar- og Geirfinnsmálum

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Frá endurupptöku málanna í Hæstarétti í september.
Frá endurupptöku málanna í Hæstarétti í september. Vísir/Vilhelm
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur skipað nefnd til að leiða sáttaviðræður fyrir hönd ríkisstjórnarinnar við fyrrum sakborninga í Guðmundar- og Geirfinnsmálunum sem sýknaðir voru í Hæstarétti síðastliðinn fimmtudag, þann 27. September og aðstandendur þeirra.

Samkvæmt frétt á vef Stjórnarráðsins eru verkefni nefndarinnar að koma fram fyrir hönd stjórnvalda í viðræðum og sáttaumleitunum við aðila málanna og aðstandendur þeirra og gera tillögu til forsætisráðherra og ríkisstjórnar um hugsanlega greiðslu miska- og skaðabóta, eða eftir atvikum svonefndra sanngirnisbóta til aðila málsins og aðstandenda þeirra. 

Kristrún Heimisdóttir lögfræðingur er formaður nefndarinnar og fulltrúi forsætisráðuneytisins. Auk hennar skipa nefndina Bryndís Helgadóttir, skrifstofustjóri í dómsmálaráðuneytinu og Magnús Óskar Hafsteinsson, sérfræðingur í fjármála- og efnahagsráðuneytinu.

Katrín Jakobsdóttir gaf út yfirlýsingu í kjölfar dóms Hæstaréttar í síðustu viku þar sem hún baðst afsökunar fyrir hönd ríkisstjórnarinnar á því ranglæti sem sakborningar, aðstandendur þeirra og aðrir sem hafa átt um sárt að binda hafa mátt þola vegna Guðmundar-og Geirfinnsmálanna.


Tengdar fréttir

Katrín biður sakborninga og aðstandendur afsökunar

Forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir, hefur fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands beðist afsökunar „á því ranglæti,“ sem sakborningar, aðstandendur þeirra og aðrir sem hafa „átt um sárt að binda“ vegna Guðmundar-og Geirfinnsmálanna.

Allir sýknaðir í Guðmundar- og Geirfinnsmálunum

Hæstiréttur sýknaði í dag þá Sævar Marinó Cieselski, Tryggva Rúnar Leifsson, Kristján Viðar Júlíusson, Guðjón Skarphéðinsson og Albert Klahn Skaftason af ákærum um að hafa orðið þeim Guðmundi Einarssyni og Geirfinni Einarssyni að bana árið 1974. Þeir hlutu allir misþunga dóma árið 1980 vegna málanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×