Drengirnir tólf voru fastir í þröngum og dimmum helli, fullum af vatni, í Chiang Rai héraði Tælands. Björgunaraðgerðir tóku yfir eina viku og komst hópurinn heill á húfi út úr hellinum.
Spjallþáttakonan Ellen DeGeneres bauð drengjunum tólf og þjálfaranum í heimsókn í þátt sinn í vikunni og kom þeim heldur betur á óvart.
Ellen gat rætt við drengina í gegnum túlk og lýstu þeir atburðarrásinni vel. Þeir sögðust ekki hafa verið hræddir og höfðu alltaf von um að þeim yrði bjargað að lokum. Þjálfari þeirra sagði þeim að hugleiða mikið í hellinum og skipti það sköpum.
Ellen kom drengjunum á óvart með því að bjóða átrúnaðargoði þeirra í heimsókn í þáttinn og fengu þeir allir að hitta knattspyrnumanninn Zlatan Ibrahimović í þættinum. „Þetta lið er besta lið heims. Þeir sýndu mikinn liðsanda og gáfust aldrei upp,“ sagði Svíinn Zlatan Ibrahimović í þættinum.
Viðbrögð þeirra voru einstök eins og sjá má hér að neðan en þar má einnig sjá viðtalið við drengina í heild sinni. Allir eiga þeir það sameiginlegt að vilja verða atvinnumenn í knattspyrnu til að geta séð fyrir fjölskyldu sinni.