Hæstiréttur dæmdi í dag að íslenska ríkið hefði brotið gegn þjóðréttarlegum skuldbindingum sínum samkvæmt EES-samningnum með því að halda við lýði banni við innflutningi á fersku kjöti hingað til lands. Fyrirtækið Ferskar kjötvörur ehf. fór í mál við ríkið og krafðist skaðabóta þar sem fyrirtækinu var ekki heimilað að flytja hingað til lands lífrænt ferskt nautakjöt frá Hollandi á árinu 2014.
Hæstiréttur tók undir með málatilbúnaði fyrirtækisins um að sú synjun hefði farið gegn skuldbindingum íslenska ríkisins samkvæmt EES-samningnum sem leiddi til bótaskyldu ríkisins gagnvart fyrirtækinu. Námu bæturnar andvirði kjötsins og flutningskostnaði. Þá var ríkið dæmt til að greiða fyrirtækinu málskostnað á báðum dómstigum.
Ferskar kjötvörur ehf., aðildarfyrirtæki Samtaka verslunar og þjónustu, stefndi íslenska ríkinu og krafðist skaðabóta vegna tjóns sem það varð fyrir sökum synjunar á heimild til að flytja til landsins ferskar lífrænt ræktaðar nautalundir frá Hollandi. Í tilkynningu frá SVÞ vegna dómsins segja samtökin að niðurstaðan sé í samræmi við fyrri ábendingar SVÞ.
Sjá einnig: Dómstóll EFTA staðfestir ólögmæti innflutningstakmarkana á fersku kjöti
„Upphaf málsins má rekja til kvörtunar samtakanna til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) frá árinu 2011 þar sem ESA, og síðar einnig EFTA-dómstóllinn og Héraðsdómur Reykjavíkur, komust að sömu niðurstöðu,að núgildandi innflutningstakmarkanir á fersku kjöti frá öðrum EES-ríkjum séu andstæðar EES-samningnum,“ segir í tilkynningunni.
SVÞ segjast fagna niðurstöðu Hæstaréttar og lýsa henni sem lokaáfanga í baráttu sinni. Að sama skapi gagnrýna SVÞ það sem þau kalla „tregðu stjórnvalda“ að bregðast við niðurstöðum dómstóla í málinu.
„Skora samtökin á stjórnvöld og Alþingi að taka á málinu í samræmi við þjóðréttarlegar skuldbindingar íslenska ríkisins. Er það krafa SVÞ að innflutningur á fersku kjöti, sem unnið er í samræmi við strangar samevrópskar kröfur og undir eftirliti annarra EES-ríkja, verði heimilaður hér á landi í samræmi við EES-löggjöfina.“
Innflutningstakmarkanir á fersku kjöti ólögmætar að mati Hæstaréttar

Tengdar fréttir

Stjórnvöld hafi unnið gegn hagsmunum neytenda
Starfandi landbúnaðarráðherra segir að stjórnvöld hafi á umliðnum árum unnið gegn hagsmunum íslenskra neytenda með því að virða ekki ákvæði EES-samningsins um innflutning á fersku kjöti, eggjum og ýmsum mjólkurvörum. EFTA dómstólinn komst að þeirri niðurstöðu í morgun að íslenska ríkið hafi brotið gegn samningnum.

Dómstóll EFTA staðfestir ólögmæti innflutningstakmarkana á fersku kjöti
EFTA-dómstóllinn hefur staðfest ólögmæti innflutningstakmarkana á fersku kjöti.

Skora á íslensk stjórnvöld að hætta brotum á EES-samningi
Félag atvinnurekenda skorar á íslensk stjórnvöld að afnema innflutningstakmarkanir á ferskri búvöru.