Iceland Airwaves fór fram í tuttugasta skiptið í ár og ekki það síðasta. Miðasala fyrir hátíðina árið 2019 er hafin en reyndar er aðeins um takmarkað upplag að ræða í bili. Miðarnir kosta 9900 krónur sem er umtalsvert lægra en almennt verð. Miðaverð var 19.900 krónur þar til í september en hækkaði svo í 21.900 krónur.
Sena Live stóð að Iceland Airwaves í fyrsta skipti í ár eftir að fyrirtækið tók við rekstrinum frá fyrri skipuleggjendum. Miðasalan var undir væntingum að sögn Ísleifs Þórhallssonar, framkvæmdastjóra Senu Live. Voru passar á hátíðina, þar sem á þriðja hundrað listamenn frá tugum landa komu fram, seldir einmitt á 9.900 krónur síðasta sólarhringinn.
Skipuleggjendur hátíðarinnar í ár þakka tónleikagestum kærlega fyrir komuna í tilkynningu í dag.
„Þetta var eitt heljarinnar partý og við gætum ekki verið þakklátari.“
Í gær var tilkynnt að Secret Solstice tónlistarhátíðin færi fram í Laugardalnum í júní næsta sumar. Tilkynningin kom nokkuð á óvart því fyrir fjórum vikum sagði Friðrik Ólafsson, einn eigenda og framkvæmdastjóri Secret Solstice, að án frekara fjármagns færi hátíðin ekki fram að ári. Ekki hefur náðst í Friðrik undanfarinn sólarhring.
Miðasala á Iceland Airwaves 2019 hafin

Tengdar fréttir

Auglýsa Secret Solstice 2019 í skugga fjárhagserfiðleika
Tónlistarhátíðin Secret Solstice fer fram í Laugardalnum sumarið 2019. Þetta kemur fram í tilkynningu á Facebook-síðu hátíðarinnar.

Airwaves snerist gegn stöðum sem borguðu ekki
Útséð að hátíðin verði rekin með tapi í ár en sala á armböndum hefur verið undir væntingum.