Umfjöllun og viðtöl: KA - Afturelding 28-30 | Afturelding náði sigri í rafmögnuðum spennuleik

Tryggvi Páll Tryggvason í KA heimilinu skrifar
vísir/daníel
Afturelding fór með sigur af hólmi gegn KA-mönnum í rafmögnuðum spennuleik í KA-heimilinu í kvöld. Lokatölur 28-30 gestunum í vil.

Það virtist fátt benda til þess að um annað en þægilegan sigur Aftureldingar yrði um að ræða en í hálfleik var staðan 13-17 gestunum í vil. Ótrúleg byrjun heimamanna í seinni hálfleik gerði það að verkum að KA komst yfir eftir átta mínútna leik í seinni hálfleik.

Skyndilega var staðan því orðin 18-17 KA-mönnum í vil og allt ætlaði að keyra um koll í stúkunni. Afturelding virtist vera að fara á taugum og það gekk ekkert í sóknar- né varnarleik liðsins á þessum kafla. Liðið náði þó loks viðspyrnu með marki Árna Braga Eyjólfssyni og eftir það skiptust liðin á því að hafa forystuna.

Á síðustu þremur mínútum virtust heimamenn þó ekki ráða við spennuna og Afturelding sýndi klærnar með nokkrum góðum mörkum. Þegar þrjár mínútur voru eftir var staðan 26-30 sem var einfaldlega of mikið fyrir heimamenn sem náðu þó örlítið að klóra í bakkann.

Af hverju vann Afturelding?

Liðið var mikið mun sterkara en heimamenn í fyrri hálfleik og það var í raun ótrúlegt að liði skyldi glutra niður forystunni eins og raun bar vitni. Engu að síður náðu þeir að taka sig saman í andlitinu, ná áttum og sigla sigrinum heim. Það var einkum góður varnarleikur á ögurstundu, vel útfærður sóknarleikur og fín markvarsla sem skilaði tveimur stigum í hús.

KA-menn geta þó nagað sig í handarbökin að hafa ekki náð að sýna meiri yfirvegun á ögurstundu en liðið virtist komið á yfirkeyrslu eftir þessa öflugu byrjun í seinni hálfleik. Ef till vill réði það úrslitum enda voru ákvarðanir KA-manna klaufalegar á köflum undir lokin.

Hverjir stóðu upp úr?

'Í liði heimamanna voru Áki Egilsnes og Dagur Gautason atkvæðamestir. Dagur var áberandi öflugur og skoraði mikilvæg mörk aftur og aftur í leiknum. Í markinu var Jovan Kubota einnig öflugur en hann varði ansi vel á körflum.

Hjá Aftureldingu skipti innkoma Birkis Benediktssonar máli á lokametrunum en hann skoraði þrjú mörk í restina sem öll voru afar mikilvæg. Pálmar í markinu var einnig sveiflukendur en hann lokaði markinu vel í restina.

Hvað gekk illa?

Sóknar- og varnarleikur KA-manna í fyrri hálfleik var ekki til fyrirmyndar en liðið fékk á sig 17 mörk í þeim seinni. Að sama skapi var eins og liðin skiptu um hlutverk í upphafi seinni hálfleiks þegar ekkert gekk í varnar- og sóknarleik Hauka.

KA-menn gerðu sig einnig seka um klaufaleg mistök sem mögulega kostuðu liðið sigurinn sem hlýtur að vera svekkjandi þegar liðið var búið að gera svo vel í að vinna sig aftur inn í leikinn.

Hvað gerist næst?

Afturelding er með sigrinum komið í skottið á efstu liðum og munar aðeins einu stigi núna á Aftureldingu og toppliðunum Selfossi og FH. Næsti leikur verður afar mikilvægur en þá tekur liðið á móti Haukum næsta föstudag en liðin eru jöfn að stigum í 3. og 4. sæti.

KA-menn mæta hinsvegar Eyjamönnum á útivelli á sunnudaginn en liðið er nú í þriðja neðsta sæti með sex stig.

Einar Andri og hans hundtryggi aðstoðarmaður, Ásgeir Jónsson.vísir/bára

Einar Andri með báðar fæturnar á jörðinni

Einar Andri Einarsson, þjálfari Aftureldingar, var mjög sáttur í leikslok með að hafa farið heim með tvö stig úr KA-heimilinu. Hann var ánægður með leik liðs síns framan af.

„Við vorum bara í mjög góðum takti fyrstu 25 mínúturnar. Við vorum að prófa 7 á móti 6 og það gekk mjög vel,“ segir Einar Andri. „Við spiluðum frábæran fyrri hálfleik.

KA-menn gerðu virkilega vel í að vinna sig aftur inn í leikinn og Einar Andri var langt í frá sáttur með sína menn og spilamennsku þeirra fyrstu mínúturnar í fyrri hálfleik.

Við gáfum svolítið eftir í lok hans og hleyptum þeim inn í þetta eftir að hafa verið komnir sjö mörkum yfir,“ segir Einar Andri. „Síðan kom taktleysi og það kom mikið óöryggi.  Byrjunin á seinni hálfleik var alveg hroðaleg en við unnum okkur út úr því.“

Hann segir þó að liðið sitt hafi sýnt af sér mikinn karakter og mikla liðsheild með að brotna ekki undan áhlaupi heimamanna. Það sé ekki sjálfgefið að fara með tvö stig frá KA-heimilinu.

„Það hefði verið auðvelt að brotna hérna í frábærri stemmningu og umgjörð í KA-heimilinu og ég vil hrósa þeim hvernig staðið er að þessu,“ segir Einar Andri.

Liðið er nú skammt á eftir toppliðunum en Einar Andri er með báðar fætur á jörðinni.

„Það er frábært að vera einu stigi frá efstu liðunum en það er bara nóvember enn þá og við þurfum að halda áfram að safna stigum. Við megum ekki vera að horfa á einhverja toppbaráttu ennþá, það er alltof snemmt.“

 

Stefán á hliðarlínunni gegn Fram í vetur.vísir/bára

Stefán: Þurfum að læra að sýna meiri skynsemi

Stefán Árnason, þjálfari KA-manna, var nokkuð sáttur með leik sinna manna enda náði liðið að vinna sig inn í leikinn á ótrúlegan hátt eftir að hafa verið 13-17 undir í hálfleik. Þeir komu hins vegar dýrvitlausir inn í seinni hálfleikinn og sjö mínútum síðar var liðið komið yfir.

„Við ætluðum bara að halda áfram. Við neituðum að gefast upp og ætluðum að vera með í leiknum.  segir Stefán. „Við töluðum um að ef við myndum ná að fá örlítið meira í sókn og örlítið meira í vörn gætum við snúið leiknum og við náum að gera það.“

Liðið fékk hins vegar 17 mörk á sig í fyrri hálfleik.

„Það er alltof mikið og vörnin var ekki góð í fyrri hálfleik. Þeir spila sjö á móti 6 og gera það mjög vel, sérstaklega í byrjun leik,“ segir Stefán. Hann er þó kátur með að liðið hafi fundið lausn við sóknarleik Aftureldingar og náð að vinna sig aftur inn í leikinn.

„Við getum verið mjög ánægðir með það að við fundum lausnir á móti. Við leystum þá mjög vel undir lok hálfleiksins og í byrjun seinni hálfleiksins og getum klárlega tekið það með okkur úr leiknum,“ segir Stefán.

Það ætlaði allt um koll að keyra í KA-heimilinu þegar KA komst yfir en Stefán segir að mögulega hafi of mikið verið eftir þegar liðið komst yfir, menn hafi farið á yfirsnúning og kannski ekki alveg ráðið við að halda haus út leikinn.

„Þá hefðum við þurft að sýna meiri skynsemi en það er bara eitthvað sem við þurfum að læra. Við erum nýjir í þessari deild að spila við Aftureldingu sem er eitt af þremur bestu liðunum. Þeir voru mjög góðir í kvöld.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira