Bessí Jóhannsdóttir, fyrrverandi varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, hefur sett einbýlishús við Einimel í vesturbænum í Reykjavík á sölu. Húsið komst í fréttirnar á dögunum þegar greint var frá því að afgirtur garður þess, og tveggja til viðbótar, væri á landi Reykjavíkurborgar.
Borgaryfirvöld vita ekki að öllu leyti hvers vegna girðing hefur verið sett upp á landinu en um er að ræða einbýlishús við Einimel 22, 24 og 26 þar sem Bessí býr.
Ekkert leyfi hefur fengist frá Reykjavíkurborg til að reisa girðingu á þessum stað og getur borgin alltaf tekið landið til baka ef á þarf að halda, það er rifið niður girðinguna, og mun viðkomandi aðili þá greiða fyrir þá framkvæmd, sem í þessu tilfelli eru eigendur einbýlishúsanna við Einimel. Þetta kom fram í svörum upplýsingafulltrúa Reykjavíkurborgar í umfjöllun Vísis um málið á dögunum.
Húsið er hið glæsilegasta. Sex herbergja og 246 fermetrar á einni hæð. Fasteignamat hússins er 162 milljónir króna en nánar má kynna sér það á Fasteignavef Vísis.
