„Ég er fjarri heimaslóðum og ekkert sérstaklega vanur loftslaginu hérna. Allt undir 22 gráðum er skítakuldi fyrir mér,“ segir Karma í samtali við Vísi.
Reglulegir gestir Iceland Airwaves þekkja það vel að frjósa í röðunum þegar skotist er á milli tónleikastaða. Þökk sé færri tónleikagestum og mildu veðri hefur það vandamál verið minna en áður.

„Ég er ekki í neinu nema nærfötum undir gallanum,“ útskýrir Karma aðspurður hvort honum sé ekki alltof heitt. Hann togar buxnahlutann upp og opnar gallann vel ef honum er heitt. Ekki var að sjá fleiri sviptadropa á nefinu á honum en öðrum tónleikagestum þannig að formúlann virtist ganga ljómandi vel upp.
Karma segist hafa komið á hátíðin 2016 og skemmt sér frábærlega.
„Ég þarf að koma á hverju ári en ég missti úr síðasta ár vegna vinnu. En núna er ég staðsettur á Írlandi svo að ferðalagið er stutt.“

Blaðamaður spyr að lokum augljósu spurningarinnar sem hann nær varla að bera fram sökum kjánahrolls.
Uh, trúirðu á Karma?
„Ég verð eiginlega að gera það fyrst það er í nafninu mínu,“ sagði Karma og hafði blessunarlega ekki farið nógu oft í viðtal til að hneykslast á spurningu blaðamanns.
Framundan hjá Karma voru tónleikar hjá Vök sem blaðamaður var sömuleiðis svo heppinn að sjá. Tónleikarnir voru ekkert minna en stórkostlegir.