Enski boltinn

Aron Einar gæti tekið eitt tímabil í handboltanum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aron Einar Gunnarsson er farinn að hugsa um framtíðina og ýmislegt kemur til greina.
Aron Einar Gunnarsson er farinn að hugsa um framtíðina og ýmislegt kemur til greina. Vísir/Getty
Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði karlalandsliðsins í knattspyrnu, var í handboltanum á sínum yngri árum og hann gæti tekið eitt tímabil í Olís-deildinni eftir að hann kemur heim.

Aron Einar nefnir þennan möguleika í hlaðvarpsviðtali við Dr. Football (Hjörvar Hafliðason) en þar fer Aron Einar yfir feril sinn og framtíð sína í boltanum.

Arnór Þór Gunnarsson, eldri bróðir Arons, er fastamaður í íslenska handboltalandsliðinu og spilar sem atvinnumaður með Bergischer HC í Þýskalandi.

„Það er nóg eftir af ferlinum en ég er samt alltaf eitthvað að pæla í því hvað ég geri eftir ferilinn. Ég er kominn með b-gráðu í þjálfun en það verður bara að koma í ljós hvort ég fari út í það,“ sagði Aron Einar Gunnarsson í viðtalinu við Hjörvar.

„Hvort að ég fari hinum megin við línuna eins og Heiðar (Helguson) og geri eitthvað allt annað verður bara að koma í ljós. Ég hef alveg ástríðu fyrir þessu og vona að það verði einnig þá því mig langar að gefa af mér,“ sagði Aron Einar

„Svo hugsa ég líka með mér, tek ég kannski bara eitt ár í handboltanum. Handboltinn er eitthvað sem ég hef saknað,“ sagði Aron Einar en væri ekkert mál fyrir hann að hoppa aftur inn í handboltann.

„Ég geri mér alveg grein fyrir því að það myndi taka tíma. Ég veit að ég er ekki að fara að labba inn í efstu deild á Íslandi og þyrfti bara að taka mér tíma í að þjálfa mig í það ef ég færi þá leið,“ sagði Aron Einar og bætti við:

„Ég veit það ekki en það blundar eitthvað í mér þarna,“ sagði Aron Einar en það má nálgast allt spjallið við Aron Einar með því að smella hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×