Aftonbladet segir frá því í dag að hin 26 ára Anna Bergendahl, sem keppti fyrir hönd Svíþjóðar árið 2010, muni eiga lag í Melodifestivalen sem hefst í byrjun febrúar.
Sérstaka athygli vakti þegar lag hennar, This Is My Life, komst ekki upp úr undanúrslitariðlinum í keppninni 2010, en Svíar leggja jafnan mikið í keppnina og var þetta í fyrsta og eina skiptið sem framlag Svía keppti ekki á úrslitakvöldinu frá því að núverandi fyrirkomulag í Eurovision var tekið upp.
Áður höfðu sænskir fjölmiðlar greint frá því að sveitin Arvingarna munu einnig eiga lag í Melodifestivalen, en þeir áttu framlag Svíþjóðar í Eurovision árið 1993 þegar þeir sungu Eloise.
Alls er búið að greina frá átján af alls 28 sem munu eiga lag í Melodifestivalen á næsta ári. Sænska sjónvarpið mun kynna þátttakendur á blaðamannafundi 27. nóvember næstkomandi.
Eurovision fer fram í Tel Aviv dagana 14., 16., og 18. maí á næsta ári.