Þingmennirnir fjórir hafa verið í sviðsljósinu undanfarna tvo sólarhringa eftir að upptökur af samtölum þeirra bárust DV og Stundinni. Ummælin fela mörg hver í sér kvenfyrirlitningu og hafa þingmennirnir beðist afsökunar á orðum sínum hver á sinn hátt. Sumir á Facebook en aðrir í viðtölum í fjölmiðlum.
Þingmennirnir hafa verið spurðir að því hvort þeir hyggjast segja af sér. Anna Kolbrún er sú eina sem hefur sagst velta stöðu sinni fyrir sér.
Hvorki gjaldkeri né ritari
Ólíkt öðrum flestum stjórnmálaflokkum landsins er enginn gjaldkeri, ritari eða meðstjórnandi í stjórn flokksins. Fjórir skipa einfaldlega stjórn Miðflokksins samanborið til dæmis við sautján í tilfelli Vinstri grænna.Hólmfríður Þórisdóttir, ritari þingflokksins, útskýrði fyrirkomulagið í samtali við Vísi. Hún minnti á að þingflokkurinn væri ungur og stjórnin hefði verið kosin í fyrsta sinn í apríl. Endurskoðun á straumlínulögun flokksins og hvernig stjórnin er skipuð stendur yfir að sögn Hólmfríðar.
Þá bendir Hólmfríður á að 120 manns eigi sæti í flokksráði sem fundi tvisvar á ári, síðast í nóvember. Stjórn Miðflokksins kallar saman flokksráðið.
Mættu ekki á nefndarfundi
Hólmfríður sagðist ekki vita betur en að þingflokkur Miðflokksins myndi funda í dag. Fréttastofa hefur ekki fengið upplýsingar um hvar og hvenær þingflokkurinn hyggst funda. Formaður þingflokksins er Gunnar Bragi Sveinsson og varaformaður Bergþór Ólason.Nefndarfundir voru á Alþingi um og eftir hádegi í dag.Nefndarmenn í umhverfis- og samgöngunefnd óskuðu eftir því að Karl Gauti Hjaltason sem á sæti í nefndinni myndi víkja af fundi í dag. Tilefnið var að Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri Vestmannaeyja var gestur fundarins en nafn hennar kemur fyrir í Klaustursupptökunum. Bergþór Ólason er formaður umhverfis- og samgöngunefndar en hann var ekki viðstaddur. Hann var á sameiginlegum fundi utanríkismálanefndar og umhverfis- og samgöngunefndar um loftslagsmál en hætti við að koma á fund þeirrar nefndar sem hann gegnir formennsku í. Þá mættu Sigmundur Davíð og Anna Kolbrún ekki á nefndarfundi sína í efnahags- og viðskiptanefnd annars og allsherjar- og menntamálanefnd hins vegar.
Þau mættu hins vegar í þingmannaveislu á Bessastöðum í gærkvöldi þar sem Bergþór og Gunnar Bragi sátu hjá.