Attenborough var valinn til að tala máli íbúa jarðar við fulltrúa tæplega tvö hundruð ríkja sem sækja fundinn í Katowice. Fundinum er ætlað að ákveða reglur um hvernig ríkin ætla að ná og mæla markmið sín um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda.
„Um þessar mundir stöndum við frammi fyrir manngerðum hörmungum á heimsvísu, mestu ógn okkar í þúsundir ára: loftslagsbreytingum,“ sagði Attenborough. „Ef við grípum ekki til aðgerða er hrun siðmenningar okkar og útrýming stórs hluta náttúruheimsins í sjónmáli.“
Krafði enski náttúrufræðingurinn og heimildarmyndargerðarmaðurinn leiðtoga heims um aðgerðir og forystu. Framtíð siðmenningarinnar og náttúrunnar væri í þeirra höndum, að því er segir í frétt The Guardian.
Höfundar skýrslu sem Sameinuðu þjóðirnar birtu í síðustu viku komust að þeirri niðurstöðu að ríki heims væri víðsfjarri því að draga úr losun nægilega til að hægt verði að halda hnattrænni hlýnun innan við 1,5-2°C eins og Parísarsamkomulagið kveður á um. Draga þurfi fimmfalt meira úr losun til að hægt verði að ná 1,5°C markmiðinu.
Miðað við núverandi losun stefnir hnattræn hlýnun í að minnsta kosti 3°C fyrir lok aldarinnar og jafnvel meira. Þess konar hlýnunar fylgja verri hitabylgjur, þurrkar, úrhelli og veðuröfgar sem geta leitt til uppskerubrests og efnahagslegs og samfélagslegs óstöðugleika. Við þær aðstæður ógnaði hækkun yfirborðs sjávar um metra eða meira fyrir lok aldarinnar samfélögum hundruð milljóna manna á strandsvæðum jarðar.
Sir David Attenborough says that we're facing a man-made disaster on a global scale. https://t.co/mnv5BLTo72 Via @ReutersTV #COP24 pic.twitter.com/pz3Pxz9Q1e
— Reuters Top News (@Reuters) December 3, 2018