Liverpool fær Manchester United í heimsókn í stórleik 17. umferðar ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu karla á Anfield á morgun. Segja má að taflið hafi snúist frá því sem verið hefur lungann úr síðustu þremur áratugum tæpum.
Fyrir leiki helgarinnar er Liverpool í efsta sæti deildarinnar með eins stigs forskot á Manchester City og 16 stig skilja að Liverpool og Manchester United sem situr í sjötta sæti deildarinnar.
Liverpool er í meiðslavandræðum í varnarlínu sinni, en Joël Matip, Trent Alexander-Arnold og Joe Gomez glíma við meiðsli. Nathaniel Clyne hefur æft af fullum krafti í vikunni og er leikfær í leiknum, en líklegra er að James Milner leysi hægri bakvarðarstöðuna að þessu sinni. Hjá Manchester United eru Victor Lindelöf og Alexis Sánchez á meiðslalistanum.
Liverpool þurfti að öllum sínum kröftum og einbeitingu að halda í sigrinum gegn Napoli í Meistaradeildinni, en sigurinn var lífsnauðsynlegur til þess að tryggja liðinu sæti í 16 liða úrslitum keppninnar. Manchester United gat hins vegar mætt áhyggjulaust til leiks þegar liðið mætti Valencia þar sem liðið var þegar komið áfram fyrir leikinn.
Liðin gerðu markalaust jafntefli þegar þau mættust í deildinni á síðasta keppnistímabili, en Manchester United hafði betur í deildarleik liðanna á Old Trafford. Liverpool ætti að mæta til leiks með meira sjálfstraust þar sem liðið hefur borið sigur úr býtum í síðustu fjórum leikjum sínum og sex af síðustu sjö leikjum sínum. Manchester United hefur hins vegar á sama tíma unnið tvo af síðustu sjö leikjum sínum, tapaði tveimur og gert þrjú jafntefli.
Liðin hafa skorað ámóta mörg mörk í deildinni á yfirstandandi leiktíð. Manchester United hefur hins vegar gengið mun verr en Manchester United að koma í veg fyrir mörk andstæðinga sinna. Liverpool hefur fengið á sig sex deildarmörk á meðan Manchester United hefur lekið 20 mörkum meira.
