Egyptinn Mohamed Salah hristi af sér allt slen og reyndist hetja Liverpool-manna í 4-0 stórsigri á Bournemouth um helgina. Handhafi gullskósins og eigandi markametsins í tuttugu liða úrvalsdeildinni skoraði þrennu í leiknum en þetta var í fyrsta sinn síðan 17. mars síðastliðinn sem hann skorar meira en eitt mark í sama leiknum í ensku úrvalsdeildinni.
Salah hafði heppnina með sér í fyrsta markinu sem hefði ekki átt að standa þar sem hann var rangstæður en hann var vakandi og stökk á frákastið eftir skot Roberto Firmino eins og framherja sæmir. Hann gerði vel í öðru markinu þegar hann stóð af sér groddalega tæklingu Stevens Cook sem virtist stíga á hásinina á Salah en hann lék á varnarmann Bournemouth og lagði boltann í netið. Salah fullkomnaði síðan þrennuna þegar hann komst inn í sendingu Cook, lék tvívegis á Asmir Begovic í marki Bournemouth og setti boltann rólegur í netið.
Þriðja mark hans um helgina var tíunda markið hans í ensku úrvalsdeildinni í vetur og deilir hann efsta sætinu í baráttunni um gullskóinn með Pierre-Emerick Aubameyang. Hann virðist vera að finna taktinn betur og betur með hverjum leik sem líður og eru það frábærar fréttir fyrir Liverpool-menn fyrir næstu vikur þar sem liðið á erfiða leiki fram undan.
Salah var maður helgarinnar
Kristinn Páll Teitsson skrifar

Mest lesið



Yngsti markaskorari efstu deildar: „Langaði í annað“
Íslenski boltinn






Kristian Nökkvi skoraði og lagði upp
Fótbolti
