Nærri því þrír af hverjum fjórum félögum í breska Verkamannaflokknum vill að önnur þjóðaratkvæðagreiðsla verði haldin um útgönguna úr Evrópusambandinu. Þeir eru þannig ósammála Jeremy Corbyn, leiðtoga flokksins, sem vill að niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar árið 2016 verði endanleg.
Alls voru 1.034 félagar í Verkamannaflokknum spurðir út í afstöðu sína í skoðanakönnun Yougov. Af þeim sögðust 83% hafa greitt atkvæði með því að Bretland yrði um kyrrt í Evrópusambandinu á sínum tíma. Töldu 89% þeirra að rangt væri að ganga úr sambandinu.
Rúmlega 1.600 kjósendur voru einnig spurðir og sögðust 73% telja það mistök að segja skilið við ESB, að því er kemur fram í frétt Financial Times.
Corbyn hefur ekki tekið undir kröfur sumra félaga sinna um að önnur þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram. Hann vill að Bretland verði í varanlegu tollabandalagi við ESB eftir útgönguna.
Könnunin bendir til þess að 72% flokksmanna vilji að Corbyn styðji aðra þjóðaratkvæðagreiðslu. Færi slík atkvæðagreiðsla fram myndu 88% flokksmanna greiða atkvæði með áframhaldandi veru í ESB og 71% kjósenda flokksins.
Þrátt fyrir þess gjá á milli stefnu Corbyn og afstöðu flokksmanna hans nýtur hann enn stuðnings sem formaður. Þannig telja 65% félaga í Verkamannaflokknum hann standa sig vel þrátt fyrir að innan við fjórðungur almennings sé á sama máli.
![Fréttamynd](/static/frontpage/images/kvoldfrettir.jpg)