Í viðtali við Chris Cuomo, þáttastjórnanda CNN-fréttastöðvarinnar, ræddu þeir Giuliani um samskipti starfsmanna framboðsins við Rússa. Giuliani kvartaði undan því sem hann kallaði „falsfréttir“ um Rússarannsóknina svonefndu. Cuomo svaraði þá til að falsar fréttir væru að segja að enginn í framboðinu hafi átt í samskiptum við Rússa eða að ekkert hafi komið fram sem benti til samráðs á milli framboðsins og Rússa.
Við þau orð Cuomo var Giuliani ekki sáttur og sakaði hann um að gera sér upp skoðanir.
„Ég sagði aldrei að það hefði ekki verið neitt samráð á milli framboðsins, eða á milli fólks í framboðinu,“ fullyrti fyrrverandi borgarstjóri New York við Cuomo sem þrætti fyrir það.
„Ég hef ekki gert það. Ég sagði forseti Bandaríkjanna. Það er ekki eitt einasta sönnunargagn um að forseti Bandaríkjanna hafi framið eina glæpinn sem hægt er að fremja hér, leggja á ráðin með Rússum um að hakka landsnefnd Demókrataflokksins,“ hélt Giuliani áfram.
Talið er að rússneskir hakkarar hafi brotist inn í tölvupósta Demókrataflokksins og lekið þeim í gegnum Wikileaks árið 2016.
„Hann sagði ekki enginn, hann sagði að hann gerði það ekki,“ sagði lögmaðurinn.
Það er þó ekki rétt, eins og Cuomo benti Giuliani strax á. Í síðasta mánuði tísti forsetinn meðal annars um að „Demókratar finna ekki [rjúkandi] byssu sem tengir Trump-framboðið við Rússland eftir framburð James Comey. Engin [rjúkandi] byssa…Ekkert samráð.“
“Democrats can't find a Smocking Gun tying the Trump campaign to Russia after James Comey's testimony. No Smocking Gun...No Collusion.” @FoxNews That's because there was NO COLLUSION. So now the Dems go to a simple private transaction, wrongly call it a campaign contribution,...
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) December 10, 2018
Miklar vangaveltur hafa verið uppi undanfarið um að rannsókn Roberts Mueller, sérstaka rannsakanda dómsmálaráðuneytisins, á meintu samráði Trump-framboðsins við Rússa, gæti verið á lokametrunum. Búist er við því að hann taki saman niðurstöður sínar í lokaskýrslu.
Uppfært 16:25 Guiliani sendi frá sér yfirlýsingu í dag vegna viðtalsins á CNN. Heldur hann því fram að orð sín hafi verið mistúlkuð. „Ég kem aðeins fram fyrir hönd Trump forseta, ekki framboðs Trump. Trump forseti átti ekki í neinu samráði á neinn hátt, formi eða tagi. Á sama hátt hef ég enga vitneskju um samráðs neinnar þeirra þúsunda manna sem unnu fyrir framboðið,“ segir Giuliani í yfirlýsingunni.
From Giuliani: pic.twitter.com/VUt5LYvI2T
— Maggie Haberman (@maggieNYT) January 17, 2019