Um er að ræða seinni árásina af tveimur sem ákært er fyrir í slagsmálum sem urðu milli Pólverja og dyravarða á staðnum umrædda nótt.
Artur Pawel Wisocki, 29 ára karlmaður, er ákærður fyrir fyrri árásina sem leiddi til lömunar dyravarðar. Helsta ágreiningsmálið snýr að því hvort Artur hafi hrint dyraverðinum eftir að hafa reitt honum hnefahögg og elt hann inn á staðinn. Sækjandi telur ljóst að Artur hafi hrint dyraverðinum harkalega en Artur neitar því.
Á meðan þessu stóð var Dawid í slagsmálum við annan dyravörð. Artur kom svo aftur og veitti sama dyraverði högg. Þeir viðurkenna báðir að hafa veitt þeim dyraverði hnefahögg og spörk. Dawid neitaði þó að hafa veitt dyraverðinum högg í höfuð. Hann viðurkennir þó að hafa haldið dyraverðinum svo hann kæmist ekki undan, togað hann út á gangstétt svo hann kæmist ekki inn á barinn.
Dyraverðirnir hafi sýnt þeim óvirðingu
Dawid segir það ekki hafa verið planið að fara frá Hressó á Shooters til þess að ráðast á dyraverðina. Þeir hafi einfaldlega ætlað að athuga hvort þeir kæmust aftur inn á staðinn. Kjaftur hafi verið á einum dyraverðinum og slagsmálin hafist í framhaldinu.Hann tók undir með Arturi að dyraverðirnir hefðu sýnt þeim óvirðingu. Sjálfur hefði hann ekki verið jafnölvaður og aðrir þetta kvöld þar sem til hefði staðið að hann keyrði síðar um kvöldið.
Bjarni Hauksson, verjandi Dawids, spurði skjólstæðing sinn út í aðstæður hans.
Dawid sagðist hafa unnið á Íslandi hjá sama vinnuveitanda í eitt og hálft ár. Hann ætti konu og fimm börn.
„Ég sé mjög mikið eftir þessu og langar að biðjast afsökunar.“
Dyravörðurinn fer fram á 2,5 milljónir í miskabætur vegna árásarinnar.