Á meðan leikmenn New England Patriots njóta Super Bowl-vikunnar er liðsfélagi þeirra, Josh Gordon, enn í meðferð vegna eiturlyfjanotkunar. Hann mun ekki sjást í Atlanta þar sem leikurinn fer fram.
Gordon náði að spila tólf leiki fyrir Patriots áður en hann féll aftur og fór í meðferð enn eina ferðina. Það var í desember og hann er þar enn.
NFL-deildin hefur sett hann í bann og óljóst hversu langt það bann verður og einnig er óljóst hvort hann snúi aftur út á völlinn.
Patriots er að greiða fyrir meðferð Gordon í Flórída en hann er einn hæfileikaríkasti útherji deildarinnar en hefur verið í vandræðum með vímuefni allan sinn feril.
Ef hans menn vinna Super Bowl þá fær hann aftur á móti meistarahring fyrir sitt framlag til liðsins í vetur.
