Erlent

Útilokar ekki að vinna með saksóknara

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
Roger Stone á föstudaginn.
Roger Stone á föstudaginn. Vísir/Getty
Roger Stone, samstarfsmaður Donalds Trump Bandaríkjaforseta til margra ára, sagði í gær að hann myndi svara öllum spurningum Roberts Mueller, sérstaks saksóknara, sem rannsakar tengsl forsetaframboðs Trumps við rússnesk yfirvöld, af hreinskilni. Stone útilokaði ekki að vera samvinnufús og aðstoða Mueller við að svipta hulunni af hinum meintu samskiptum við stjórnvöld í Moskvu.

„Ef það var einhver glæpur framinn af fólki sem starfaði fyrir framboðið [...] þá mun ég sannarlega vitna um það af heilindum,“ sagði Stone í viðtali á sjónvarpsstöðinni ABC í gær.

Stone, sem er 66 ára, var handtekinn á föstudaginn fyrir helgi og er meðal annars gefið að sök að hafa hindrað framgang réttvísinnar og reynt að hafa áhrif á framburð vitna í tengslum við rannsókn Muellers.

Í ákærunni kemur hvergi fram að Stone sé grunaður um að hafa haft bein samskipti við rússnesk yfirvöld. Hins vegar kemur þar fram að Stone hafi rætt við háttsetta stjórnendur í teymi Trumps um WikiLeaks og gögn frá uppljóstrunarsamtökunum sem voru sögð skaðleg fyrir framboðs Hillarys Clinton, mótframbjóðanda Trumps.

Í viðtalinu sagði Stone að það hefði aldrei komið til tals milli hans og Trumps að hann yrði náðaður ef allt færi á versta veg og sagði þá aldrei hafa rætt um WikiLeaks eða stofnanda samtakanna, Julian Assange.

Stone segist vera saklaus af ásökunum Muellers og hyggst sanna sakleysi sitt fyrir dómstólum.




Tengdar fréttir

Náinn bandamaður Trump handtekinn

Roger Stone, náinn bandamaður og ráðgjafi Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, hefur verið handtekinn í Flórída vegna Rússarannsóknar Robert Mueller.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×