Innlent

Hæfnisnefnd ráðleggur borgarráði um val á æðstu stjórnendum

Kjartan Kjartansson skrifar
Samkvæmt samþykktum Reykjavíkurborgar hefur borgarráð það hlutverk að ráða starfsmenn í æðstu stjórnunarstöður og veita þeim lausn frá störfum.
Samkvæmt samþykktum Reykjavíkurborgar hefur borgarráð það hlutverk að ráða starfsmenn í æðstu stjórnunarstöður og veita þeim lausn frá störfum. Vísir/Vilhelm
Borgarráð Reykjavíkurborgar mun skipa sérstaka hæfnisnefnd með utanaðkomandi aðila sem á að vera ráðgefandi við ráðningar í æðstu stjórnunarstöður borgarinnar. Þetta er á meðal ákvæða nýrra reglna um ráðningar æðstu stjórnenda sem borgarráð samþykkti á fundi sínum í dag.

Tilgangur reglnanna er sagður sá að tryggja að val á æðstu stjórnendum borgarinnar ráðist alltaf af hæfni umsækjenda og grundvallist á ráðningarferli þar sem gagnsæi og jafnræði sé haft að leiðarljósi, að því er segir í frétt á vef Reykjavíkurborgar.

Hæfnisnefndin verður skipuð að minnsta kosti þremur mönnum og einum utanaðkomandi aðila. Þegar nefndin hefur skilað skýrslu þarf borgarráð að samþykkja tillögu um ráðningu. Borgarráð þarf jafnframt að samþykkja tillögu um að auglýsa störf, ráðningarferlið og hæfnisnefndina.

Að öðru leyti eru reglurnar sagðar svipaðar og eldri reglur um ráðningar. Kveðið er á um að auglýsingar skulu birtar í fjölmiðlum og á vef borgarinnar, umsóknarfrestur sé rúmur, hugað sé að jafnréttissjónarmiðum, menntunar- og hæfnisviðmiðum. Þá er tilgreint að listi yfir umsækjendur skuli birtur opinberlega innan þriggja sólahringa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×