„Ég ætla að hætta mér inn í umræðuna um rafsígarettur - með mynd sem ég tók í sjoppu í Mosfellsbæ. Þessar umbúðir segja allt um aðferðafræðina við markaðssetningu rafrettna og markhópinn, enda notar nú fjórðungur framhaldsskólanema rafrettur daglega. Er það í lagi?“ spyr Tómas.
Litadýrðinni ætlað að glepja ungmennin
Og læknirinn heldur áfram: „Hversu mörg af þessum ungmennum munu ánetjast nikótíni og byrja að reykja síðar á ævinni? Ég veit að margir hafa náð að hætta að reykja með rafrettum - sem er jákvætt - en það réttlætir ekki svona markaðssetningu. Og ekki segja mér að sú ánægjulega staðreynd að aðeins 4% framhaldsskólanema reyki sígarettur daglega sé vegna rafrettna. Sú jákvæða þróun hófst áður en rafrettur tröllriðu markaðnum.“
Guðmundur Karl bendir á að rök Tómasar hvað varðar litadýrð á umbúðum, að slík höfði einkum til ungmenna, standist varla. Því vissulega séu litir notaðir í umbúðir á allt mögulegt sem einnig er ætlað fullorðnum. Og það sé einfaldlega bannað lögum samkvæmt að selja börnum og unglingum undir 18 ára aldri veipglussa á gufuvélarnar. Það hafi hins vegar ekki stoppað ungmenni í því að komast yfir tóbak.
Minnkandi reykingar má þakka veipunni
Guðmundur Karl svarar Tómasi ítarlega og fer í pistil hans lið fyrir lið. En, kjarni málsins er að þá greinir á um hvað veldur því að reykingar hafa dregist saman; Guðmundur Karl segir engum blöðum um það að fletta að þar eigi veipan stærstan þátt.
„Súmmerað upp: þeir unglingar sem veipa voru 65% að reykja áður og stærstur hluti þeirra TIL VIÐBÓTAR eru þeir sem voru/eru að nota munntóbak líka! Hve stór er þá hópur þeirra sem höfðu aldrei notað tóbak (reykt og reyklaust) áður? Spurðu Rannsóknir og Greiningu að því. Áhugaverð tala það örugglega. Í erlendumrannsóknum, Bretlandi og USA, er sá fjöldi nefnilega hverfandi lítill, eða langt undir 1% krakkanna. Hóparnir sem um ræðir voru 82.000 börn sem rannsóknir þessar náðu yfir!“