Sáttmálinn nær ekki yfir eldflaugar skotið er frá skipum, kafbátum eða flugvélum.
Bandaríkin og Atlantshafsbandalagið hafa lengi sagt Rússa brjóta gegn sáttmálanum. Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, tilkynnti ákvörðunina í dag og sagði brot Rússa á sáttmálanum ógna öryggi milljóna í Evrópu og Bandaríkjunum.
Hann sagði Bandaríkin hafa veitt Rússum nægan tíma til að breyta hegðun sinni og fara eftir sáttmálanum á nýjan leik. Það hefðu yfirvöld Rússlands ekki gert.
CNN vitnar í yfirlýsingu frá Trump þar sem hann segir Bandaríkin hafa fylgt skilyrðum sáttmálans í rúm 30 ár. Það yrði þó ekki lengur á meðan Rússar gerðu það ekki.
„Við getum ekki verið eina þjóð heimsins sem er bundin af þessum sáttmála eða öðrum,“ sagði Trump.
Forsvarsmenn Atlantshafsbandalagsins hafa sent frá sér tilkynningu þar sem þeir segjast styðja ákvörðun Bandaríkjanna að fullu því Rússar hafi neitað að fylgja sáttmálanum.
Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, lýsti yfir stuðningi við ákvörðun Bandaríkjanna í tísti í dag.
Russia is in material breach of the #INFTreaty & must use next 6 months to return to full & verifiable compliance or bear sole responsibility for its demise. #NATO fully supports the US suspension & notification of withdrawal from the Treaty: https://t.co/VOhUB0HoAdpic.twitter.com/28Rwicqr8o
— Jens Stoltenberg (@jensstoltenberg) February 1, 2019
Þá sagði hann sömuleiðis að Rússar myndu bregðast við ef Bandaríkin kæmu kjarnorkuvopnum á meðaldrægum eldflaugum fyrir í Evrópu og kjarnorkuvopnum Rússlands yrði miðað á þau ríki sem hýstu þau vopn.
Embættismenn í Evrópu og sérfræðingar telja mögulegt að upplausn sáttmálans muni leiða til nýs vopnakapphlaups á milli Bandaríkjanna og Rússlands.
Bæði Bandaríkin og Rússlands hafa þó gagnrýnt INF-sáttmálann á undanförnum árum vegna þess að aðrar þjóðir, og þá sérstaklega Kína, séu ekki aðilar að honum. Kínverjum hafi verið frjálst að þróa og framleiða meðaldrægar flaugar að vild.
Þá hafa Kínverjar komið slíkum eldflaugum fyrir í Asíu og Suður-Kínahafi. Eins og er hafa Bandaríkin ekki burði til að sporna gegn þeim eldflaugum vegna INF-sáttmálans.
Trump hefur sagt að hann vilji gera nýjan sáttmála og þá á milli Bandaríkjanna, Rússlands og Kína. Hann hefur sömuleiðis gefið í skyn að hann væri alls ekki hræddur við nýtt vopnakapphlaup.