Þar sem leikstjórnandinn Colin Kaepernick hefur náð samkomulagi við NFL-deildina eftir langar og harðar deilur er hann loksins farinn að hugsa um að spila aftur í deildinni.
Kaepernick náði nokkuð óvænt sáttum við deildina um helgina. Það sem er kannski enn óvæntara er að ekki var neitt gefið upp um sáttina og málsaðilar munu ekki tjá sig frekar um hana.
Þó er nokkuð víst að NFL-deildin þurfti að galopna veskið til þess að þagga niður í fyrrum leikstjórnanda San Francisco 49ers.
Strax daginn eftir sagði lögfræðingur hans að Kaepernick vildi komast aftur í deildina. Það sem meira er þá taldi hann upp líkleg lið fyrir skjólstæðing sinn. Þau eru Carolina Panthers og New England Patriots.
Hjá Panthers myndi Kaepernick hitta Eric Reid sem einnig stóð í deilum við deildina og gekk frá sínu máli á sama tíma og leikstjórnandinn. Ekkert er heldur gefið upp um hans sátt.
Kaepernick hætti í deildinni eftir tímabilið 2017 og ekkert félag samdi við hann eftir það. Þá fór hann í mál og sakaði eigendur liðanna um að hafa ákveðið sín á milli að halda honum utan deildarinnar.
Ástæðan sú að Kaepernick stóð fyrir mótmælum fyrir leiki með því að fara niður á hné meðan þjóðsöngurinn var leikinn. Með því vildi hann mótmæla misrétti í Bandaríkjunum.
