Ekkert hefur spurst til Jóns síðan hann yfirgaf hótelherbergi sitt í Dyflinni laugardaginn 9. febrúar síðastliðinn. Lögreglu borgarinnar tókst að rekja hluta slóðar hans með aðstoð öryggismyndavéla en hefur auk þess ráðist í viðamikla leit úr lofti og með aðstoð leitarhunda.
Sú leit hefur þó lítinn árangur borið og hafa nú tíu ættingjar Jóns því flogið til Írlands til að aðstoða við leitina. Í samráði við írsku lögregluna hófu ættingjar hans svo skipulagða leit að Jóni í morgun með aðstoð sjálfboðaliða - og hún kallar eftir fleirum.
„Við erum að binda miklar vonir við að sú tilkynning sem við sendum út á fjölmiðla hérlendis muni skila sér í einhverjum sjálfboðaliðum frá og með morgundeginum, því að tíminn er gríðarlega mikilvægur í málum sem þessum,“ segir Davíð Karl Wiium, bróðir Jóns Þrastar.
Íslendingum er jafnframt velkomið að aðstoða við leitina. „Ef fólk vill koma og hjálpa frá Íslandi þá er það auðvitað sjálfsagt mál og við tökum öllum fagnandi. En það er allt á góðri leið og hérna vinnum við saman frá morgni til kvölds, eða alveg þangað til að það er svartamyrkur. Vonandi skilar það einhverju sem fyrst og við erum ekkert á leiðinni heim fyrr en við finnum bróður okkar,“ segir Davíð Karl.