Aðalfundur Icelandair Group fór fram í dag. Á fundinum var meðal annars samþykkt tillaga þess efnis að greiða ekki arð til hluthafa félagsins fyrir rekstrarárið 2018. Frá þessu er greint í tilkynningu.
Síðasta ár reyndist flugfélaginu erfitt þar sem það tapaði 6,6 milljörðum króna. Björgólfur Jóhannsson sagði upp forstjórastöðunni í ágúst síðastliðnum í kjölfar þess að Icelandair lækkað afkomuspá sína um 80 til 100 milljónir dollara EBITDA fyrir árið. Var það í annað sinn á tveimur mánuðum sem félagið lækkaði afkomuspána.
Bogi Nils Bogason tók við forstjórastöðunni en í september var á þriðja tug starfsmanna sagt upp hjá félaginu.
Á aðalfundinum í dag var ný stjórn Icelandair Group kosin og kemur Svafa Grönfeldt ný inn í stjórnina. Úlfar Steindórsson er áfram formaður stjórnar og Ómar Benediktsson er varaformaður.
Aðalfundurinn samþykkti tillögu stjórnarinnar um þóknun til stjórnarmanna en samkvæmt henni verða stjórnar- og nefndarlaun sem hér segir:
„Stjórnarmenn fái 330.000 krónur á mánuði, formaður fái 660.000 krónur á mánuði, varaformaður fái 495.000 krónur á mánuði, nefndarmenn í undirnefndum fái 120.000 krónur á mánuði, formaður endurskoðunarnefndar fái 275.000 krónur á mánuði og formaður starfskjaranefndar 150.000 krónur á mánuði. Stjórn mun ákveða þóknun fyrir setu aðila sem tilnefndir eru af hluthöfum í tilnefningarnefnd og skal greitt fyrir fjölda unninna tíma, verði tillaga um að koma á fót tilnefningarnefnd samþykkt.“
Nánar má lesa um niðurstöður aðalfundar Icelandair Group hér.
Aðalfundur Icelandair samþykkti að greiða ekki arð til hluthafa félagsins
