Það var við hæfi að hrinda rannsókninni úr vör í dag á Alþjóðadegi svefns.
„Þessi rannsókn snýst um að skoða hrotur og öndunarstopp hjá börnum og hvaða áhrif þau hafa á andlegan og líkamlegan þroska barna og þá vitsmunagetu, skólaeinkunnir og fleira,“ segir Erna Sif Arnardóttir, rannsóknarfræðingur við HR og Landspítala.

„Þetta veldur bæði einkennum sem líkjast athyglisbresti og ofvirkni og veldur aukinni ofbeldishneigð og börnum líður ekki jafn vel. Þau eru syfjuð og í staðinn fyrir að sofna fram á borðið eins og við fullorðna fólkið gætum gert þá eru þau meira að sýna þetta með því að vera svona eins og ofvirk.“
„þeim gengur ekki jafn vel í skóla og þau sem eru verst sett þau vaxa ekki eðlilega og ná ekki að halda í sína eðlilegu vaxtakúrvu.“
Hópi barna sem fædd eru árin 2005-2010 verður boðið að taka þátt í rannsókninni.

Að rannsókninni standa háskólinn í Reykjavík, Landspítalinn og svefnrannsóknarfyrirtækið Nox Medical.
„Við erum að þróa nýjar greiningar til að mæla svefn og svefnraskanir ekki síst hjá börnum og það er gert með nýjum aðferðum byggðar með gervigreind,“ segir Halla Helgadóttir, rannsóknarstjóri Nox Medical.