Erlent

Rússarannsóknin heldur áfram enn um sinn

Kjartan Kjartansson skrifar
Rick Gates hefur nú unnið með saksóknurum í rúmt ár.
Rick Gates hefur nú unnið með saksóknurum í rúmt ár. Vísir/EPA
Embætti sérstaka rannsakanda bandaríska dómsmálaráðuneytisins óskaði eftir því í dag að frestað verði að ákveða refsingu fyrrverandi aðstoðarkosningastjóra Donalds Trump Bandaríkjaforseta þar sem hann vinni enn með saksóknurum. Líklegt hefur verið talið að rannsóknin væri á lokasprettinum en beiðnin þykir benda til þess að endalok hennar séu enn ekki í sjónmáli.

Í greinargerð sem saksóknarar Roberts Mueller, sérstaka rannsakandans á meintu samráði forsetaframboðs Trump við Rússa, skiluðu svæðisdómstól í Washington-borg óskaðu þeir eftir því við dómara að hann frestaði að ákveða refsingu Rick Gates, fyrrverandi aðstoðarkosningastjóra Trump, til 14. maí.

„Gates heldur áfram að vinna með áframhaldandi rannsóknum og í samræmi við það telja aðilar ekki viðeigandi að hefja ákvörðun refsing á þessari stundu,“ segir í greinargerðinni, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Gates játaði sig sekan um að hafa logið að rannsakendum og átt aðild að samsæri gegn Bandaríkjastjórn í febrúar í fyrra. Hann hefur veitt saksóknurum upplýsingar um fyrrverandi yfirmann sinn, Paul Manafort, fyrrverandi kosningastjóra Trump. Manafort var dæmdur í rúmlega sjö ára fangelsi fyrir ýmis brot í vikunni.

Politico segir að greinargerð saksóknara bendi til þess að Gates gæti verið að vinna með saksóknurum í New York sem rannsaka innsetningarnefnd Trump. Gates tók þátt í að skipuleggja innsetningarhátíðina þrátt fyrir að Manafort hefði látið af störfum sem kosningastjóri Trump í ágúst árið 2016.

Bandarískir fjölmiðlar hafa gert að því skóna undanfarið að rannsókn Mueller væri við það að ljúka. Fresturinn í máli Gates gæti bent til þess að enn sé nokkuð í að saksóknararnir hafi gengið frá öllum lausum endum í rannsókn sinni sem beinist einnig að því hvort að Trump forseti hafi hindrað framgang réttvísinnar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×