Þetta kom fram í máli Boga Nils Bogasonar forstjóra Icelandair í þættinum Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í dag. Bogi ítrekaði að hugur fyrirtækisins væri hjá starfsfólki WOW air og fjölskyldum þeirra á þessum „sorgardegi í íslenskri flugsögu“.

Samtals er gert ráð fyrir að um 7500 einstaklingum verði flogið til síns heima í dag og næstu daga. Áhafnarmeðlimirnir eru um hundrað talsins en þeir munu komast til síns heima, sér að kostnaðarlausu, að sögn Boga.
„Síðast þegar ég frétti eru um hundrað áhafnarmeðlimir Wow air, sem eru allir áhafnarmeðlimir sem voru úti, komnir með sæti í okkar vélum.“
Ekki staðið fyrir neinum verðhækkunum
Þá hefur nokkuð borið á umræðu um verðhækkun á flugmiðum hjá Icelandair í kjölfar gjaldþrots Wow air. Samfélagsmiðlanotendur hafa margir lýst yfir óánægju með slíkar hækkanir en Bogi sagði engar breytingar hafa verið gerðar á verðlagningu Icelandair.„Við höfum verið að bjóða farþegum sem eru strandaðir sérfargjöld, bæði til Evrópu og Norður-Ameríku og hingað heim, þannig að það hafa engar hækkanir átt sér stað hjá okkur hvað varðar flugmiðaverð,“ sagði Bogi. Verðlagsbreytingar sem neytendur gætu hafa orðið varir við eigi sér eðlilegar skýringar, líkt og fjallað hefur verið um fyrr í dag.
„En það er þannig í rekstri flugfélaga að þegar flugvélar eru að fyllast og mjög fá sæti eftir að síðustu sætin eru alltaf dýrust. Og bókunarflæðið hefur verið mjög sterkt síðustu daga, bæði í gær og í dag, þannig að vélar eru að fyllast hjá okkur og síðustu sætin eftir og síðustu „klassarnir“. Sem þýðir að í einhverjum tilvikum er fólk að sjá hærra verð í gær en í dag á sama fluginu, það er bara af því að það er kannski bara eitt eða tvö sæti eftir.“
Viðtalið við Boga má hlusta á í heild hér í spilaranum hér að neðan.