Erlent

Var 100 metrum frá því að stranda

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Eins og sjá má var skipið komið ansi nálægt landi.
Eins og sjá má var skipið komið ansi nálægt landi. AP/Frank Einar Vatne
Búið er að flytja 338 af þeim 1.300 farþegum sem voru um borð í skemmtiferðaskipinu Viking Sky sem var nálægt því að stranda við strendur Noregs í gær. Búið er að koma þremur af fjórum vélum skipsins í gang og stefnt er að því aðstoða það við að komast til Molde í dag.

Skipið gengur því nú fyrir eigin vélarafli og ferðast það nú löturhægt í átt að Molde en reynt verður að koma línu í skipið síðar í dag svo draga megi það til hafnar. Það mun þó alfarið fara eftir veðri og vindum hvort slíkt muni takast. Á vef Marine Traffic má sjá að Viking Sky er nú komið töluvert frá landi.

Ferill skipsins.Mynd/Marine Traffic.
Þyrlur ganga stöðugt á milli skips og lands til þess að flytja farþega á brott en þrjár þyrlur eru notaðar til verksins. Sautján farþegar hafa verið fluttir á sjúkrahús, þar af þrír alvarlega slasaðir en myndbönd sem birt hafa verið sýna hversu mikið gekk á inn í skipinu.

Í frétt NRK er haft eftir embættismönnum að litlu hafi mátt muna að mjög illa færi og að skipið hafi verið aðeins 100 metrum frá því að stranda á grynningum. Talið er að hafa skipt sköpum að skipverjum tókst að stöðva rek skipsins í átt að landi með því að setja út akkeri. Skipið var aðeins um kílómetra frá landi þegar verst lét.

Neyðarkall kom frá skipinu klukkan tvö í gær að norskum tíma og hafa björgunaraðgerðir staðið yfir látlaust síðan þá.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×