Bandaríska tónlistarkonan Madonna mun koma fram á úrslitakvöldi Eurovision í Tel Avív í Ísrael 18. maí næstkomandi. Ísrealska ríkissjónvarpið, KAN, staðfesti þetta í dag en ísraelsk-kanadíski milljarðamæringurinn Sylvan Adams er sagður standa straum af kostnaði bandarísku stjörnunnar.
Talið er að Madonna muni flytja tvö lög á úrslitakvöldinu, eitt nýtt og eitt þekkt. Er talið að með Madonnu muni fylgja 160 manna fylgdarlið og að kostnaðurinn við komu hennar nemi um einni milljón Bandaríkjadala, eða því sem nemur um 118 milljónum króna.
Þetta verður í fjórða skiptið sem Madonna syngur í Ísrael. Hún gerði það í fyrsta sinn árið 1993 og svo aftur 2009 og 2012.

