Baldur Þór Ragnarsson og lærisveinar hans í Þórsliðinu frá Þorlákshöfn eru á 22-0 spretti á móti KR þegar þeir heimsækja Vesturbæinga í DHL-höllina í kvöld. KR-ingar hafa ekki skorað eitt einasta stig á síðustu tæpu sjö mínútum sínum á móti Þór.
KR tekur á móti Þór í kvöld í fyrsta leik liðanna í undanúrslitaeinvígi Domino´s deildar karla í körfubolta. Leikurinn hefst klukkan 19.15 og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.
Domino´s Körfuboltakvöld er að sjálfsögðu á staðnum og hefst útsending klukkan 18.30 eða 45 mínútum fyrir leik. Umfjöllun verður líka á meðan leiknum stendur, í hálfleik og svo verður leikurinn gerður upp eftir að lokaflautið gellur.
Þetta er fyrsti leikur Þórsara eftir ótrúlega endurkomu liðsins á Sauðárkróki í upphafi vikunnar og um leið fyrsti innbyrðis leikur liðanna síðan að Þórsliðið kom til baka í deildarleik liðanna í Þorlákshöfn í janúar.
KR var 88-73 yfir í Þorlákshöfn 17. janúar eftir þriggja stiga körfu Jóns Arnórs Stefánssonar þegar 6 mínútur og 45 sekúndur voru eftir af leiknum.
Þetta reyndist vera síðasta karfa og síðustu stig KR-inga í leiknum. Þórsarar unnu lokakaflann 22-0 og tryggðu sér 95-88 sigur.
KR-liðið klikkaði á síðustu níu skotum sínu í leiknum en þau tóku bara þrír menn eða þeir Mike Di Nunno (4), Helgi Már Magnússon (3) og Kristófer Acox (2).
Stig leikmanna síðustu 6:45 í síðasta leik KR og Þórs í vetur:
Nikolas Tomsick, Þór - 6 stig
Kinu Rochford, Þór - 5 stig
Davíð Arnar Ágústsson, Þór - 5 stig
Jaka Brodnik, Þór - 4 stig
Halldór Garðar Hermannsson, Þór - 2 stig
Allt KR-liðið - 0 stig
Tölfræði liðanna síðustu 6:45 í síðasta leik KR og Þórs í vetur:
91% skotnýting hjá Þór (10 af 11)
5 tapaðir boltar hjá Þór
8 fráköst hjá Þór
0% skotnýting hjá KR (0 af 9)
4 tapaðir bolar hjá KR
2 fráköst hjá KR

