Fall WOW air var til umræðu á fundi atvinnuveganefndar Alþingis í morgun. Ferðamálaráðherra segir að skarðið sem félagið skildi eftir sig í ferðaþjónustunni sé þegar farið að minnka.
„Það eru Wizz air, Icelandair og Trasavia sem nú þegar hafa bara á einni viku minnkað þetta, þannig að brotthvarfið er að fara úr 300 þúsund ferðamönnum um það bil til landsins, og í 200 þúsund. Þannig ég myndi nú segja að þetta væri bjartari mynd en margir gerðu ráð fyrir," segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamálaráðherra.
Ferðamálastofa birti í dag samantekt um einkenni ferðamanna sem komu til landsins með WOW air annars vegar og Icelandair hins vegar, til þess að draga skýrari mynd af áhrifunum.
Þar kemur fram að yngri ferðamenn hafa komið með WOW air. Á síðasta ári voru 60% farþega félagsins undir 34 ára aldri en hlutfallið er 46% hjá Icelandair. Ferðamynstur þeirra um landið var svipað og þeir nýttu sér svipaða afþreyingu, þó marktækt færri WOW ferðamenn hafi farið í skoðunarferðir.

Ráðherra segir Isavia vinna að því að fylla enn fremur í skarð WOW air.
„Það getur alveg komið til að eitthvað fleira sé hægt að gera til að sækja það sem við misstum við fall WOW," segir Þórdís.
Eins og hvað?
„Þessi samtöl við flugfélög til dæmis. Og við höfum þegar séð töluvert meira framboð heldur en var fyrir viku síðan. Þannig að þetta er að skila árangri og þetta er að gerast á einungis viku. Þannig við höldum bara áfram á sömu leið og höldum þessum samtölum áfram," segir Þórdís Kolbrún.