Erlent

Mueller-skýrslan kemur almenningi fyrir sjónir á fimmtudag

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
William Barr er dómsmálaráðherra Bandaríkjanna.
William Barr er dómsmálaráðherra Bandaríkjanna. Vísir/EPA
William Barr, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, mun birta Mueller-skýrsluna svokölluðu á fimmtudagsmorgun að bandarískum tíma. Demókratar hafa kallað eftir því að skýrslan verði gerði opinber en búið verður að má út viðkvæmar upplýsingar fyrir birtingu skýrslunnar.

Skýrslunnar hefur verið beðið með mikilli eftirvæntingu en hún er afrakstur vinnu Robert Mueller, sérstaks rannsakanda dómsmálaráðuneytis Bandaríkjanna, og teymis hans um afskipti Rússa af forsetakosningunum í Bandaríkjunum árið 2016 og möguleg tengsl við forsetaframboðs Donald Trump.

Það eina sem birt hefur verið úr skýrslunni mátti finna í fjögurra blaðsíðna samantekt Barr en rannsókninni lauk fyrir skömmmu. Í samantekt Barr segir að rannsakendur Mueller hafi komist að þeirri niðurstöðu að starfsmenn forsetaframboðs Trump, eða aðilar sem tengdust því, hafi ekki með nokkrum hætti starfað með Rússum varðandi afskipti þeirra af kosningunum. Þrátt fyrir að þó nokkrir Rússar sem tengist yfirvöldum Rússlands hafi boðið framboðinu aðstoð.

Þá kom einnig fram að Mueller hafi neitað að leggja mat á það hvort ákæra ætti Trump fyrir að koma í veg fyrir gang réttvísinnar. Það var hins vegar mat Barr og Rod Rosenstein, aðstoðardómsmálaráðherra, að ekki væru fyrir hendi næg sönnunargögn til þess að sakfella forsetann.

Demókratar hafa undanfarnar vikur kallað eftir því að skýrslan sjálf yrði gerð opinber svo að þeir, sem og almenningur, gætu lagt sjálfstætt mat á skýrsluna og niðurstöður hennar, svo að ekki þurfi að reiða sig á samantekt embættismanns sem Trump sjálfur skipaði.

Höfðu demókratar í dómsmálanefnd fulltrúadeildar Bandaríkjaþings undirbúið það að fara í lagalegar aðgerðir til þess að fá skýrslurnar í hendurnar, væri hún ekki birt í þessari viku. Talsmaður dómsmálaráðuneytisins staðfesti hins vegar í dag að skýrslan yrði birt á fimmtudagsmorgun að bandarískum tíma, eftir að lögfræðingar luki við það að má út viðkvæmar upplýsingar sem ekki mega birtast almenningi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×