Lögmannafélag Íslands hefur óskað eftir heimild til að áfrýja máli lögmannsins og fyrrverandi Hæstaréttardómara, Jóns Steinars, á hendur félaginu. Dómur gekk í Landsrétti í síðustu viku þar sem dómi frá í héraði var snúið Jóni Steinari í vil. Þannig liggur fyrir að sjálft Lögmannafélag Íslands unir ekki dómi Landsréttar í málinu.
Lögmannafélagið áminnti Jón Steinar fyrir brot á siðareglum lögmanna vegna tölvupósta sem hann sendi Ingimundi Einarssyni, dómstjóra í Héraðsdómi Reykjavíkur, í lok árs 2017. Þessu vildi Jón Steinar ekki una, taldi áminninguna utan allrar lögsögu og kærði félagið á móti.
Óræðar heimildir
Dómur Landsréttar er skýr að mati Jóns Steinars og Björgvins meðan dómurinn sem féll í héraði stenst að þeirra mati enga skoðun og sé að þeirra mati hinn einkennilegasti.
Úrskurðarnefndin geti aðeins fjallað um kærur á hendur lögmönnum frá þeim sem hefur talið að lögmaður hafi brotið gegn sér. Svo háttaði ekki í þessu máli, að sögn Björgvins, heldur tók stjórn Lögmannafélagsins það upp hjá sjálfri sér að beina kvörtun sinni á hendur Jóni til nefndarinnar vegna samskipta hans við mann sem var stjórninni óviðkomandi.
Skilur ekki hvaða hagsmuni félagið hefur af þessu
Björgvin segir áminninguna sem Jón Steinar hlaut fráleita. Fyrir nokkrum árum óskaði þáverandi stjórn lögmannafélagsins eftir því að sett yrði inn í lög heimild til að stjórnin gæti átt aðild að málum fyrir úrskurðarnefnd. Það varð ekki.
„Ég get ekki séð hvaða hagsmuni félagið hefur af þessu. Ég held að það sé nóg komið. Og það væri gaman að vita hversu mikinn kostnað félagið hefur mátt standa straum af vegna þessarar vegferðar. Og greinilega vilja þeir fórna meiru til.“
Segir lögmannafélagið hafa skömm af málinu
Björgvin segir að fyrir utan að hafa lögbundnar skyldur sem lúta að eðlilegu eftirliti með lögmönnum þá ætti félagið kannski að einbeita sér að því að sinna hagsmunum lögmanna, en ekki dómara. Björgvin segist aðspurður ekki ætla að leggja mat á hvað býr þarna að baki.
Björgvin segist ekki sjá að þetta mál eigi neitt erindi til Hæstaréttar. „Lögmannafélagið hefur haft lítið annað en skömm af þessu máli. En hvort verður veitt áfrýjunarleyfi ætla ég ekki að segja um. Maður veit aldrei hvernig þeir eru innstilltir.“
Vísir hefur gert ítrekaðar tilraunir til að ná tali af Berglindi Svavarsdóttur, formanni Lögmannafélags Íslands, í dag vegna málsins en án árangurs.