Störf framtíðarinnar
Talið er að það muni vanta 800 þúsund manns með tæknimenntun í Evrópu árið 2020. Auk þess er talið að minnst 65% starfa framtíðarinnar séu ekki til í dag. Þess vegna mun fólk þurfa að reiða sig mun frekar á tækni og tæknilæsi þegar kemur að störfum framtíðarinnar. Í dag eru konur miklu síður líklegri til að velja sér nám í tækni. Við verðum að auka veg þeirra, bæði svo þær missi ekki af tækifærum í þessum atvinnugreinum, en einnig því viljum ekki að ný tækni verði mótuð af körlum eingöngu. En hvað veldur því að konur sækja síður í þessar námsgreinar?Skortur á fyrirmyndum
Ég tók nýlega þátt í málstofu sem bar yfirskriftina „Af hverju halda stelpur að þær geti ekki forritað?“. Allir sem þar komu fram voru sammála um að ástæðurnar væru sennilega margar og margþættar. Til dæmis er mikilvægt að kynna tækni og forritun fyrir börnum strax í grunnskóla, fólk velur sér ekki það sem það þekkir ekki. En hluti af ástæðunni er að fáar kvenkyns fyrirmyndir eru sýnilegar. Fyrirmyndir skipta nefnilega máli. Að sjá konur gera alls konar hluti, sáir fræjum hjá stelpum og gerir það að verkum að þær eru líklegri til að líta til þeirra starfa þegar þær hugsa um hvað þær vilja gera í framtíðinni.Ég er fullviss um að við munum sjá fleiri stúlkur sækja sér menntun í tækni í framtíðinni, ekki síst vegna fyrirmynda á borð við Katie Bouman.
Höfundur er borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.