Innlent

Dæmdur fyrir að taka myndir undir hurð að sturtu

Birgir Olgeirsson skrifar
Héraðsdómur Vestfjarða er á Ísafirði.
Héraðsdómur Vestfjarða er á Ísafirði. Vísir/pjetur
Héraðsdómur Vestfjarða hefur dæmt karlmann til tveggja mánaða skilorðsbundinnar fangelsisvistar fyrir kynferðisbrot gegn konu í febrúar í fyrra.

Var maðurinn ákærður fyrir að hafa smeygt síma sínum undir hurð að sturtu í húsi þar sem konan var að baða sig og tekið tvær ljósmyndir af henni nakinni. Særði maðurinn blygðunarsemi konunnar með þessari háttsemi.

Manninum var birt fyrirkall í málinu 1. apríl síðastliðinn. Hann sótti ekki þing þegar málið var þingfest 11. apríl síðastliðinn en fyrir hans hönd sótti þingið skipaður verjandi hans. Málinu var frestað til 17. apríl en hvorki maðurinn né verjandi hans mættu þá til fyrirtöku málsins.

Fór það svo að maðurinn var fundinn sekur um það brot sem honum var gefið að sök í ákæru.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×