Lífeyrissjóður verslunarmanna hefur bætt við sig í Högum með kaupum á 1,65 prósenta hlut í smásölurisanum, að virði um 860 milljónir króna, samkvæmt nýlegum lista yfir stærstu hluthafa hans. Þá hefur Stapi lífeyrissjóður keypt tæplega 0,5 prósenta hlut í félaginu en Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins og hlutabréfasjóður í stýringu Stefnis, auk 365 miðla, hafa á sama tíma minnkað umtalsvert við sig.
Lífeyrissjóður verslunarmanna, sem er næststærsti lífeyrissjóður landsins, fór um miðjan aprílmánuð með 9,95 prósenta hlut í Högum, að virði um 5,2 milljarðar króna miðað við núverandi hlutabréfaverð félagsins, en til samanburðar nam eignarhlutur sjóðsins 8,3 prósentum í lok síðasta mánaðar.
Er sjóðurinn þannig orðinn þriðji stærsti hluthafi í Högum á eftir Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins og Gildi – lífeyrissjóði en fyrrnefndi sjóðurinn seldi fyrr í mánuðinum 0,8 prósenta hlut í smásölufélaginu. Er eignarhlutur Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins nú tæplega 13,2 prósent.
Stærsti hlutabréfasjóður landsins, Stefnir – ÍS 15, hefur jafnframt minnkað hlut sinn í Högum um samtals 0,9 prósent á undanförnum vikum.
365 miðlar, sem er að mestu í eigu Ingibjargar Stefaníu Pálmadóttur, minnkuðu sem kunnugt er við sig í smásölurisanum fyrr í mánuðinum samhliða því að félagið fjárfesti í Skeljungi. Félagið átti rúmlega fjögurra prósenta hlut í Högum, meðal annars í gegnum framvirka samninga, í byrjun ársins.
Haft var eftir Jóni Skaftasyni, framkvæmdastjóra fjárfestinga hjá 365 miðlum, á vef Fréttablaðsins fyrr í mánuðinum að félagið væri enn á meðal stærstu einkafjárfestanna í Högum. Mikil tækifæri væru almennt til hagræðingar á smásölumarkaðinum.
Gengi hlutabréfa í Högum, sem reka meðal annars verslanir Bónuss og Hagkaupa, hefur lækkað um ríflega sjö prósent það sem af er ári.

