Skoðun

Afreksmenn

Óttar Guðmundsson skrifar
Árangur íslenskra íþróttamanna hefur verið heldur rýr í alþjóðasamhengi. Þegar taldir eru saman verðlaunapeningar á Ólympíuleikum og öðrum heimsleikum stöndum við öðrum Norðurlandaþjóðum að baki. Afreksmenn okkar hafa þó skarað fram úr í öðrum veigamiklum en óþekktum greinum. Einu sinni áttum við heimsmeistara í hástökki innanhúss án atrennu. Íslendingur var Evrópu- og heimsmeistari í þolfimi fyrir 20 árum. Hann var kjörinn íþróttamaður ársins en síðan hefur enginn heyrt á þolfimi minnst sem keppnisgrein. Vaskir Íslendingar hafa unnið stera­tröllakeppnina „sterkasti maður heims“. Þátttakendafjöldinn virðist verulega takmarkaður enda keppa sömu menn í trukkadrætti og tunnukasti ár eftir ár. Íslendingar hafa lengi skarað framúr á heimsmeistaramótum íslenska hestsins af skiljanlegum ástæðum.

Nú er Evrópumeistaramótið Júróvisjón nýafstaðið. ­Sigurvissir Íslendingar lentu í 10. sæti með atriðið sitt. Á hinn bóginn sigraði hópurinn með glæsibrag í keppninni „gagnrýnum gestgjafann!“ Við vorum reyndar eina þátttökuþjóðin sem eykur sigurlíkurnar til muna.

Miklu skiptir fyrir framgang íslenskra keppenda að finna sér annan vettvang en allur fjöldinn. Íslendingar munu væntanlega vinna næstu heimsmeistarakeppni í laufabrauðsbakstri. Í næstu Júróvisjón mótmælum við harðlega meðferð Hollendinga á Súrínömum og nýlendunum í Indónesíu. Við skulum auk þess gagnrýna hátt og snjallt hversu sjaldan Hollendingurinn Arjen Robben gaf boltann á Eið Smára þegar þeir spiluðu saman með Chelsea.

Okkar bíður frægðarför í lítt þekktum íþróttagreinum þar sem fulltrúar okkar keppa fyrst og fremst við sjálfa sig. Þetta mun hafa jákvæð áhrif á sjálfsvitund og þjóðarstolt.




Skoðun

Sjá meira


×