Emmanuel Macron, forseti Frakklands, ræddi um ágæti alþjóðasamstarfs í ræðu sinni við minningarathöfn í Colleville-sur-Mer í gær og reyndi þannig, samkvæmt The Guardian, að höfða til Donalds Trump Bandaríkjaforseta sem einnig var viðstaddur athöfnina.
Fjöldi fólks var saman kominn á staðnum til þess að minnast þess að 75 ár eru nú liðin frá innrás Bandamanna í Normandí í síðari heimsstyrjöldinni. Nærri 10.000 bandarískir hermenn sem fórust í innrásinni eru grafnir í Colleville-sur-Mer.
Trump hefur ítrekað beint spjótum sínum að bæði Evrópusambandinu og Atlantshafsbandalaginu (NATO). Hann hefur til dæmis átt í tolladeilum við ESB og kallað NATO úrelt.
„Við munum aldrei hætta að berjast fyrir bandalagi frjálsra þjóða. Það gerðu sigurvegararnir [í stríðinu] er þeir stofnuðu Sameinuðu þjóðirnar og NATO. Það er það sem leiðtogar Evrópu gerðu nokkrum árum síðar þegar Evrópusambandið var stofnað. Lærdómurinn sem draga má af atburðunum í Colleville-sur-Mer er augljós. Frelsið og lýðræðið er óaðskiljanlegt,“ sagði franski forsetinn í ræðu sinni.
Trump ræddi ekki um slíkt samstarf í ræðu sinni heldur lofaði hugrekki þeirra og dirfsku sem börðust í Normandí. „Þetta mikla hugrekki má rekja til mikillar trúar. Þau komu hingað og björguðu frelsinu. Svo fóru þau heim og sýndu okkur um hvað frelsið snýst,“ sagði Trump og bætti við:
„Enn öflugri en bandarísk vopn reyndist styrkur hins bandaríska hjarta. Þetta fólk óð í gegnum eld og brennistein, knúið áfram af afli sem ekkert vopn getur eyðilagt; sterkri föðurlandsást frjálsrar, stoltar og fullvalda þjóðar.“
