Skiptar skoðanir eru innan Demókrataflokksins um hvort rétt sé að kæra Trump fyrir embættisbrot. Róttækari flokksmenn vilja ólmir koma ferlinu af stað enda telja þeir að forsetinn hafi gerst sekur um spillingu í embætti.
Aðrir, Pelosi þar á meðal, eru hikandi. Þeir vita sem er að víðtækur stuðningur í þjóðfélaginu við kæru á hendur Trump er ekki fyrir hendi ef marka má skoðanakannanir. Jafnvel þó að fulltrúadeildin, þar sem demókratar ráða ríkjum, samþykkti að kæra Trump kæmi öldungadeildin, þar sem repúblikanar eru með meirihluta, aldrei til með að sakfella hann.
Betra sé því að treysta á að frambjóðandi demókrata sigri Trump í forsetakosningunum á næsta ári en að hefja kæruferli sem gæti reynt óvinsælt og aflað forsetanum samúðar.
Situr fast við sinn keip
Politico segir að Pelosi hafi tekist á við Jerry Nadler, formann dómsmálanefndar fulltrúadeildarinnar sem rannsakar nú Trump, á fundi með öðrum demókrötum á þriðjudagskvöld. Nadler hafi þrýst á Pelosi að leyfa sér að hefja rannsókn til að undirbúa kæru á hendur Trump. Pelosi hafa staðið fast á sínu og neitað.„Ég vil ekki sjá hann kærðan fyrir embættisbrot, ég vil sjá hann í fangelsi,“ sagði Pelosi á fundinum, að sögn demókrata á fundinum sem Politico ræddi við. Hún vilji að Trump fari frá með kosningum og verði þá ákærður fyrir meinta glæpi. Pelosi hefur áður sagt að hún telji að Trump forseti hylmi nú yfir glæpi sem hann hafi framið.
Á meðal þess sem demókratar vilja rannsaka eru mögulegir hagsmunaárekstrar Trump og spilling. Þá komu fram upplýsingar í skýrslu Roberts Mueller, sérstaka rannsakanda dómsmálaráðuneytisins, um að forsetinn hafi hindrað framgang réttvísinnar þegar hann reyndi ítrekað að leggja stein í götu rannsóknar hans.
Trump og Hvíta húsið hafa brugðist við kröfum fulltrúadeildarinnar um gögn og vitnisburð með því að hunsa stefnur þingnefnda. Tekist er á um stefnurnar fyrir dómstólum.