„Við munum gera mjög, mjög viðamikinn viðskiptasamning, það verður mjög sanngjarn samningur og ég held að það sé eitthvað sem við viljum bæði gera,“ sagði Trump við May.
Kátínu vakti þegar Trump lagði til að May yrði um kyrrt og gengi frá samningnum með honum. May ætlar að segja af sér sem leiðtogi Íhaldsflokksins á föstudag en gegna embætti forsætisráðherra áfram þar til nýr leiðtogi hefur verið valinn.
May sagði að Bretland og Bandaríkin ættu að vinna saman að því að halda mörkuðum frjálsum, sanngjörnum og opnum, að því er segir í frétt Reuters.

Boðað hefur verið til áframhaldandi mótmæla gegn Trump víða um Bretland í dag. Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, ætlar að taka þátt í þeim í London. Loftbelgur í líki Trump sem smábarns í fýlukasti var sendur á loft við þinghúsið.
„Við erum að reyna að minna forsetann á hversu óvelkominn hann er í þessu landi. Donald Trump er barnalegur, ómerkilegur, móðgandi. Hann er holdgervingur alls þessa. Þetta er ótrúlega viðeigandi leið til að bjóða hann velkominn,“ segir Leo Murray, einn þeirra sem gerði loftbelginn.