Donald Trump Bandaríkjaforseti telur að Nigel Farage, leiðtogi Brexit-flokksins, ætti að hafa aðkomu að útgönguviðræðum Breta við Evrópusambandið. Hann segir einnig að Bretar ættu að vera reiðubúnir að yfirgefa ESB án nokkurs konar útgöngusamnings.
Þetta segir Trump í viðtali við breska dagblaðið Sunday Times. Hann telur nálgun bresku ríkisstjórnarinnar á samningaviðræðurnar við ESB hafa gert það að verkum að sambandið hafi nú „öll spil á hendi sér.“
Nokkuð óvenjulegt þykir að forseti Bandaríkjanna tjái sig jafn mikið um stjórnarhætti bandamanna sinna á þann hátt sem Trump hefur gert upp á síðkastið, en í gær sagðist hann telja að Boris Johnson yrði góður eftirmaður Theresu May, sem lætur af embætti forsætisráðherra þann 7. júní næstkomandi.
Sjá einnig: Bandaríkjaforseti segir Boris Johnson tilvalinn sem næsta forsætisráðherra Bretlands
Trump segir Farage, sem er ötull gagnrýnandi May, hafa upp á mikið að bjóða með tilliti til samningaviðræðna við ESB og því ætti breska ríkisstjórnin að veita honum sæti við samningaborðið.
„Hugsið ykkur hversu vel það myndi ganga ef það yrði gert,“ sagði forsetinn.
Þá telur forsetinn að fari svo að Bretar fái ekki það sem þeim hugnast út úr viðræðum við Evrópusambandið, ættu þeir heldur að kjósa að yfirgefa sambandið án samnings.
„Ef þið fáið ekki samninginn sem þið viljið, ef þið fáið ekki sanngjarnan samning, ættuð þið að ganga frá borðinu.“
Segir Farage eiga að taka þátt í viðræðum Breta við Evrópusambandið

Tengdar fréttir

Brexit-flokkurinn sigurvegari Evrópuþingskosninga í Bretlandi
Hinn nýstofnaði Brexit-flokkur Nigel Farage virðist vera sigurvegari Evrópuþingskosninganna í Bretlandi en þegar tilkynntar hafa verið niðurstöður kosninga um 64 af 73 Evrópuþingssætum Bretlands hafa Brexit-menn tryggt sér 28 þingsæti með 32% greiddra atkvæða.

Bandaríkjaforseti segir Boris Johnson tilvalinn sem næsta forsætisráðherra Bretlands
Donald Trump segir Johnson alltaf hafa verið jákvæðan í hans garð, sem og Bandaríkjanna.

Vara leiðtogaefni við tjóni af útgöngu án samnings
Samtök bresks iðnaðar segja fyrirtæki aldrei geta verið búin undir það að Bretland gangi úr Evrópusambandinu án útgöngusamnings.

May ætlar að hætta 7. júní
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, ætlar að segja af sér sem leiðtogi Íhaldsflokksins.