Erlent

Mögnuð ljósmynd sýnir afleiðingar hlýindanna á Grænlandi

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Myndin var tekin þann 13. júní síðastliðinn, þegar hitamet féllu á Grænlandi.
Myndin var tekin þann 13. júní síðastliðinn, þegar hitamet féllu á Grænlandi. Mynd/Steffen Olsen
Ljósmynd sem sýnir sleðahunda draga snjósleða í norðvesturhluta Grænlands þykir varpa óhugnanlegu ljósi á þau skilyrði sem sköpuðust við landið vegna óvenjulegra hlýinda í síðustu viku. Á myndinni sést hversu mikill ís hefur bráðnað í hitanum en hundarnir vaða vatn þar sem áður var gegnheill ís.

Rétt fyrir helgi var greint frá því að bráðnun Grænlandsjökuls og hafíss á Norður-Íshafinu væri við það að setja met. Óvenjuleg hlýindi á austanverðu Grænlandi og inn á jöklinum settu af stað bráðnun á um 45% íshellunnar, sem jafnan gerist ekki fyrr en um mitt sumar. Þá var hitinn á Grænlandi meira en tuttugu gráðum yfir meðallagi í síðustu viku.

Steffen Olsen, loftslagsvísindamaður hjá dönsku veðurstofunni, tók myndina 13. júní síðastliðinn, þegar hlýjast var, og birti samstarfsmaður hans myndina í kjölfarið á Twitter.

Þeir voru á ferð á sleða við Inglefield-fjörð þar sem yfirborðið á ísilögðum firðinum hafði bráðnað vegna hitans. Þar sem hafísinn er afar þykkur og bráðnaði auk þess skyndilega náði vatnið ekki að leka í gegnum hann heldur safnaðist saman eins og stöðuvatn. Þess vegna virðist sem hundarnir gangi á vatni á myndinni.

Myndin hefur vakið mikla athygli síðustu daga og hafa netverjar margir lýst yfir áhyggjum af umfangi bráðnunarinnar, ástæðum hennar og afleiðingum.

William Colgan, vísindamaður hjá Jarðfræðirannsóknarstofnun Danmerkur og Grænlands, bendir á í samtali við BBC að hlýindin í síðustu viku hafi aðeins verið afmarkaður og afar óvenjulegur atburður. Þó beri að hafa í huga að slík ofsafrávik geti orðið æ algengari ef fram fer sem horfir.


Tengdar fréttir

Hækkun sjávarmáls gæti orðið tvöfalt meiri

Hundruð milljónir manna gætu misst heimili sín á láglendum svæðum á þessari öld vegna hækkunar yfirborðs sjávar dragi menn ekki hratt úr losun á gróðurhúsalofttegundum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×