Greint er frá þessu á tyrkneska miðlinum Daily Sabah þar sem farið er yfir málið.
Tyrkneska liðið mætir því íslenska á Laugardalsvelli á morgun í undankeppni EM í fótbolta.
Daily Sabah hefur eftir framherja tyrkneska liðsins, Burak Yilmaz, að starfsmenn Keflavíkurflugvallar hefðu látið hann og liðsfélaga hans bíða í rúma þrjá tíma við vegabréfaeftirlitið og að þeir hafi þurft að undirgangast ítarlega og endurtekna leit áður en þeim var hleypt inn í landið.

„Það sem gerðist hér er dónaskapur. Við höfum beðið í þrjá klukkutíma. Þeir tóku töskur okkar allra. Þeir leituðu ítarlega í þeim. Við flugum í sex og hálfa klukkustund og höfum þurft að bíða í þrjá tíma. Sumir af vinum okkar eiga enn eftir að komast í gegn,“ er haft eftir Burak Yilmaz á Daily Sabah.
Miðillinn hefur eftir Belözoğlu að liðsmenn hafi þurft að fara í gegnum ítarlega leit að óþörfu og bætti við að hann vonaðist til að yfirvöld á Íslandi myndu útskýra ástæðuna að baki þessari raun.
Utanríkisráðherra Tyrkja, Mevlüt Çavuşoğlu, segir þessa meðferð tyrkneska liðsins óásættanlega þegar kemur að sjónarmiðum um háttvísi í samskiptum ríkja og mannúðar.
Milli Takımımızın İzlanda havaalanında maruz kaldığı muamele diplomatik teamüller bakımından da insani bakımdan da kabul edilemez. Gereğini yapacağımızdan milletimizin şüphesi olmasın. @TFF_Org @MilliTakimlar
— Mevlüt Çavuşoğlu (@MevlutCavusoglu) June 10, 2019