Síðastliðinn vetur fór Gunnhildur til Tenerife með fjölskyldunni í frí. Ákveðið var að leigja íbúð í gegnum íslenska þjónustu að nafni Tenerife Leigumiðlun. Fjölskyldan millifærði á leigusalann tæpa hálfa milljón fyrir vikudvöl í húsnæðinu.
Þegar út var komið tók leigusalinn á móti fjölskyldunni og tjáði þeim að húsnæðið sem þau höfðu leigt væri ekki hæft til notkunar. Þess í stað hefði hann útvegað fjölskyldunni annarri íbúð, en eins og sjá má á myndunum eru íbúðirnar ekki sambærilegar.
„Við vildum fá að sjá húsin og þau voru mjög langt frá því sem við vorum búin að borga fyrir. Við gátum ekki einu sinni setið öll og fengið okkur kvöldmat saman því það voru hvorki stólar né borðbúnaður til að gera það,“ sagði Gunnhildur Guðnýjardóttir, innanhússarkitekt.
Leigusalinn sem um ræðir er íslenskur en íbúi á Tenerife segir algengt að Íslendingar leitist við að leigja íbúðir af öðrum Íslendingum.
„Við trúðum þessu eiginlega ekki. Þetta lá á manni allan tímann. Þrátt fyrir að hafa fundið aðra íbúð þá vorum við búin að borga mikið og þurftum svo að borga enn meira til að vera á einhverjum almennilegum stað,“ sagði Gunnhildur.

Fjölskyldan hefur leitað til lögmanns og er búið að leggja fram kæru í málinu. Að sögn lögmannsins hefur önnur fjölskylda sett sig í samband við hann í dag. Gunnhildur segir mikilvægt að fólk sé varað við umræddum viðskiptum.
„Við viljum ekki að fleiri lendi í því sama og við. Þetta er bara hræðilegt að lenda í þessu og vera svo í stappi við manneskju sem ekki er hægt að treysta á neinn hátt,“ sagði Gunnhildur.
Ekki náðist í leigusalann við vinnslu fréttarinnar.