Innlent

Rúm­lega helmingur þátt­tak­enda upp­lifir sig öruggan á hjóli í Reykja­vík

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
Rúmlega helmingur þátttakenda í vettvangsrannsókn sem unnin var fyrir Reykjavíkurborg um öryggistilfinningu hjólreiðarmanna upplifa sig örugg á hjóli í Reykjavík. Tæplega tólf prósent upplifa sig óörugg.

Sigrún Birna Sigurðardóttir, samgöngu- og umhverfissálfræðingur, segir tölurnar jákvæðar og svipa til þess sem mældist í hinni miklu hjólreiðaborg Kaupmannahöfn þegar mælingar hófust þar.

Sigrún Birna vann rannsóknina sem var bæði í formi spurningalista á netinu og svo í formi vettvangsrannsóknar á hjólreiðastíg í Fossvogi. Hún segir mikilvægt að taka saman gögn af þessum toga til að borgin geti markað sér stefnu í uppbyggingu innviða fyrir hjólreiðarmenn.

Hún segir að rannsóknin hafi gefið til kynna að öryggistilfinning hjólandi borgarbúa sé almennt góð eða um 54 prósent sem telja sig örugg á hjólastígum í Reykjavík.

„Hjólreiðar hafa verið ört vaxandi og eru núna hraðast vaxandi samgöngumáti á höfuðborgarsvæðinu og miðað við það erum við að fá nokkuð góðar tölur, við erum svipuð og Kaupmannahafnarborg þegar þeir byrja að mæla þetta. Þeir eru komnir upp í rúm sjötíu prósent og er það markmiðið þeirra að halda því allavega þar.“

Tæp tólf prósent upplifa óöryggi á hjóli og nefna það sem hamlandi þátt við að nýta hjól. Þar eru konur og eldri borgarar líklegri til að upplifa óöryggi.

„Þarna erum við að sjá, þó það sé ekki munur á milli almennrar öryggisupplifunar á höfuðborgarsvæðinu á milli kynjanna þá er þetta samt sem áður hamlandi atriði fyrir konur og þá sem eldri eru frekar en þá sem yngri eru og karla,“ segir Sigrún Birna Sigurðardóttir, samgöngu- og umhverfissálfræðingur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×