Fótbolti

Segja Real Madrid ætla að selja James til að eiga fyrir Pogba

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
James Rodriguez vann tvöfalt með Bayern í vetur.
James Rodriguez vann tvöfalt með Bayern í vetur. Vísir/Getty
James Rodriguez á það sameiginlegt með Gareth Bale að um leið og hann er stærsta knattspyrnustjarna þjóðar sinnar þá er hann um leið út í kuldanum hjá Zinedine Zidane, knattspyrnustjóra Real Madrid.

Nú segja ensku blöðin frá því að Real Madrid vilji selja Kólumbíumaninn sem hefur verið í láni hjá Bayern München undanfarin tímabil. Ástæðan er að félagið þarf að safna pening svo það eigi fyrir kaupunum á Paul Pogba frá Manchester United.

Það hafa örugglega nokkur félög áhuga á að kaupa James Rodriguez enda mjög öflugur leikmaður þótt að hann eigi ekki upp á pallborðið hjá Zidane.





Manchester United vill fá 150 milljónir punda fyrir Paul Pogba og Real Madrid hefur þegar eytt 303 milljónum evra í nýja leikmenn í sumar. Real Madrid hefur fengið varnarmennina Ferland Mendy (frá Lyon) og Eder Militao (frá Porto), sóknarmiðjumanninn Eden Hazard (frá Chelsea) og sóknarmennina Rodrygo Goes (frá Santos) og Luka Jovic (frá Eintracht Frankfurt).

Að sama skapi hefur Real Madrid selt leikmenn fyir 128 milljónir evra og er því eins og er í 175 milljónum í mínus.

Carlo Ancelotti, þjálfari Napoli, hefur mikinn áhuga á því að fá James Rodriguez til ítalska félagsins en James Rodriguez var í stóru hlutverki hjá Ancelotti þegar hann þjálfaði Real Madrid á sínum tíma. Mestar líkur eru því að James endi hjá Napoli.

Til að auka áhuga á James Rodriguez að koma til Napoli þá eru einnig sögusagnir um það að félagið sé tilbúið að leyfa honum að spila í treyju númer tíu. Napoli hefur ekki leyft neinum að spila í henni til að minnast tíma Diego Maradona hjá félaginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×