Skoðun

Staðfesta Íslands

Davíð Stefánsson skrifar

Við öðlumst mannréttindi við fæðingu. Þau spretta af samfélagslegu mikilvægi þess að fólk beri virðingu hvert fyrir öðru og viðurkenni rétt allra til mannlegrar reisnar. Þau eru óháð félagslegri stöðu, eignum, kynferði, kynþætti, litarhafti, trú, tungu, skoðunum og þjóðerni. Algild.

Alþjóðasamfélagið hefur viðurkennt tilvist mannréttinda með ýmsum skuldbindingum. Hlutverk Mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna er að efla og vernda mannréttindi, fjalla um mannréttindabrot og beina tilmælum til einstakra ríkja um úrbætur.

Ísland tók sæti í Mannréttindaráðinu í júlí á síðasta ári og situr þar út árið 2019. Þetta er eitt veigamesta hlutverk sem Ísland gegnir á alþjóðavettvangi og einstakt tækifæri til að láta gott af sér leiða. Áherslur Íslands í ráðinu lúta að jafnréttismálum, réttindum hinsegin fólks, réttindum barna, umbótum á starfsemi ráðsins og tengslum mannréttinda við umhverfismál.

Í ráðinu hefur Ísland meðal annars leitt sameiginlega yfirlýsingu um bágborna stöðu mannréttinda í Sádi-Arabíu. Þar hefur baráttufólk fyrir kvenréttindum verið fangelsað og pyntað. Þrengt er að fjölmiðlamönnum og þeir myrtir. Á vettvangi ráðsins hefur Ísland að auki leitt gagnrýni á Duterte forseta á Filippseyjum. Hann fyrirskipaði aftökur á þúsundum manna í svokölluðu stríði gegn fíkniefnum.

Mannréttindaráðið er vaktað af ýmsum frjálsum alþjóðlegum félagasamtökum. Þar á meðal er Mannréttindavaktin (Human Rights Watch) sem er alþjóðleg samtök, óháð ríkisstjórnum, sem fylgjast með þróun mannréttinda og mannréttindabrota um allan heim.

Athyglisvert var að heyra í John Fisher, forystumanni Mannréttindavaktarinnar, þegar hann heimsótti Ísland á vordögum. Hann benti á að að þegar ekkert annað ríki vildi gagnrýna Sádi-Arabíu vegna mögulegra hagsmunaárekstra sýndi Ísland staðfestu. „Gott frumkvæði lítur aldrei dagsins ljós nema ríki stígi fram með forystu og ábyrgð gegn því ástandi refsileysis að brotamenn telja sig geta komið fram vilja sínum og verði ekki gerðir ábyrgir af verkum sínum,“ sagði Fischer.

Fulltrúi Mannréttindavaktarinnar sagði það hafa verið til fyrirmyndar hvernig Ísland leiddi starfið á þessum vettvangi. Það var ekki skilyrt þátttöku annarra ríkja. Mörg ríki eru reiðubúin að gagnrýna mannréttindabrot ef þau finna stuðning nægilega margra. Þau vilji fyrst lóða dýptina. En Ísland lagði til formlega gagnrýni á Sáda og bað svo um stuðning annarra. Þessari staðfestu Íslands fylgdu aðrir eftir.

Hér er vel að verki staðið. Íslensk utanríkisþjónusta á skilið hrós fyrir störf sín í Mannréttindaráðinu. Þau sýna að fámennar þjóðir geta lagt sitt af mörkum öllum til heilla.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×