Tölur sýna að það er minna byggt á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu. Áberandi er að framkvæmdir hafa farið hægar af stað úti á landi eftir bankahrunið 2008.
Íbúðalánasjóður hefur skoðað þetta nánar í tilraunaverkefni með sjö sveitarfélögum. Félags- og barnamálaráðherra kynnti í samráðsgátt stjórnvalda í dag tólf tillögur til úrbóta.
„Það er farið að aftra atvinnuuppbyggingu víða á landsbyggðinni þar sem er næga atvinnu að hafa. Það vantar fólk til vinnu en það er ekki húsnæði til að hýsa það fólk sem vill flytja á svæðið og vill vinna þar,“ segir Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra.

„Hugmyndin á bak við þennan nýja lánaflokk er að hann sé hugsaður til þess að geta gripið inn í og geta veitt fólki á landsbyggðinni sem vill byggja möguleika á því með lánveitingum í gegnum Íbúðalánasjóð og á hagstæðari vöxtum en eru í dag,“ segir Ásmundur Einar Daðason.